90 hleðslustöðvar á þremur árum

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og …
Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orukuveitu Reykjavíkur, undirrituðu í dag samkomulag um uppbyggingu innviða fyrir rafbíla. Ljósmynd/Orkuveita Reykjavíkur

Komið verður upp 30 hleðslustöðvum við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar og 60 slíkum á landi borgarinnar víðsvegar um Reykjavík. Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur undirrituðu samkomulag þess efnis í dag.

Einnig verður settur á laggirnar 120 milljóna króna sjóður sem til þess er fallinn að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa til að koma upp hleðslubúnaði.

Gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist á þessu ári og að það muni standa í þrjú ár. Verkefnið felur í sér „stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur,“ að því er fram kemur í tilkynningu OR til fjölmiðla.

Fyrstu 30 hleðslustöðvarnar sem settar verða upp verða við starfsstöðvar borgarinnar eða í nágrenni þeirra.

Staðsetning fyrirhugaðra hleðslustöðva við starfstöðvar borgarinnar.
Staðsetning fyrirhugaðra hleðslustöðva við starfstöðvar borgarinnar. Mynd/Orkuveita Reykjavíkur

Aukalega verða gerðar 20 aðrar stöðvar á ári næstu þrjú árin til þess að þjónusta eigendur rafbíla sem ekki hafa færi á hleðslu á eigin lóð.

Rekstur boðin út

Ekki hefur verið ákveðið hvar þær stöðvar verða staðsettar, en óskað verður eftir tillögum um staðsetningar frá íbúum, en „Reykjavíkurborg og Veitur munu velja endanlegar staðsetningar til samræmis við fjölda íbúa og önnur hagkvæmnisjónarmið.“

Fram kemur í tilkynningunni að uppsetning og rekstur hleðslustöðvanna verður boðin út og að hleðsla verði seld á þessum tilteknu bílastæðum sem eingöngu verður ætlað rafbílum. „Reykjavíkurborg leggur til stæðin, Veitur leggja til heimtaugar og OR fé í styrktarsjóðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert