Afrituðu netföng að notendum forspurðum

Facebook viðurkennir að hafa farið bakdyraleið til þess að ná …
Facebook viðurkennir að hafa farið bakdyraleið til þess að ná í lista yfir tölvupóstföng notenda sinna. AFP

Samfélagsmiðillinn Facebook hefur viðurkennt að hafa afritað tölvupóstfangalista meira en 1,5 milljón notenda sinna án þess að æskja leyfis þeirra. Facebook segir „mistökin“ sér stað í kerfi sem ætlað er að sannreyna auðkenni nýrra notenda Facebook. 

Við nýskráningu óskaði Facebook þess af nýnotendum að þeir gæfu upp lykilorð við tölvupóstföng sín og afritaði þau tölvupóstföng sem notendurnir höfðu skráð í tölvupósthólfum sínum, að notendum forspurðum.

Fyrirkomulagið við lýði frá því 2016

Í tilkynningu frá Facebook segir að fyrirtækið fari nú aðrar leiðir við nýskráningu notenda í því skyni að koma í veg fyrir að tölvupóstföng afritist. Þá verður öllum tölvupóstföngunum eytt og hefur verið haft samband við alla sem í atvikinu lentu. Talið er að Facebook hafi staðið að málum með þessum hætti til að kortleggja félagsleg- og persónuleg tengsl milli notenda sinna.

Í frétt Business Insider segir að Facebook hafi byrjað að afrita tölvupóstfangalista nýnotenda sinna í maí árið 2016. Fyrir þann tímapunkt hafi nýir notendur verið spurðir hvort þeir vildu staðfesta auðkenni sín með því að fá sendan tölvupóst. Þá hafi þeir einnig verið spurðir hvort þeir vildu hlaða inn á Facebook tölvupóstfangalista sínum sjálfviljugir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert