Mýtur um svefn skaðlegar heilsunni

Flest höfum við gerst sek um að ýta á Snooze-takkann …
Flest höfum við gerst sek um að ýta á Snooze-takkann þegar vekjaraklukkan hringir. Getty images

Algengar mýtur um svefn hafa margar hverjar neikvæð áhrif á heilsu okkar og lundarfar, auk þess sem þær geta haft áhrif á lífslíkur okkar. Þetta eru niðurstöður rannsóknar vísindamanna við New York University sem birtar eru í tímaritinu Sleep Health.

Rannsóknin fór þannig fram að vísindamennirnir fundu staðhæfingar um svefn sem er hvað oftast haldið fram á netinu og báru þær saman við vísindaleg gögn, en með rannsókninni vonast þeir til þess að bæta andlega og líkamlega heilsu fólks með því að hrekja algengar mýtur um svefn.

Mýturnar sem farið er yfir í rannsókninni eru sex talsins.

Mýta 1 - Fimm klukkutíma svefn nægir

Fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Margaret Thatcher, var þekkt fyrir að sofa aðeins fjórar klukkustundir á nóttu og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur gefið til kynna að hún geri slíkt hið sama. 

Ekki er óalgengt að fólk skipti út svefnstundum fyrir vinnustundir, en samkvæmt rannsókninni er þessi mýta ein sú allra skaðlegasta. 

„Fjölmargar rannsóknir hafa sannað að fimm klukkustunda svefn á nóttu til lengri tíma eykur líkur á heilsufarsvandamálum stórlega,“ segir Rebecca Robbins, einn vísindamannanna sem að rannsókninni stendur. Styttri en fimm klukkustunda svefn til lengri tíma eykur líkur á hjartasjúkdómum og styttir lífslíkur.

Mýta 2 - Áfengi hjálpar þér að sofa

Áfengi getur hjálpað þér að sofna, hvort sem það er vínglas, viskíglögg eða flaska af bjór, en það dregur úr gæðum svefnsins. Sérstaklega hefur það truflandi áhrif á draumsvefn (REM), sem er mjög mikilvægur fyrir minnið.

Þar að auki hefur áfengi vatnslosandi áhrif, sem geta valdið því að þú vaknir til að fara á salernið um miðja nótt.

Mýta 3 - Sjónvarpsgláp hjálpar þér að slaka á fyrir svefninn

Sjónvarpsáhorf fyrir svefninn getur valdið stressi og andvöku þegar þú átt heldur að reyna að slaka á. Þá sendir sjónvarpið frá sér bláa birtu, rétt eins og snjallsímar og spjaldtölvur, sem tefur framleiðslu líkamans á svefnhormóninu melatónín.

Mýta 4 - Haltu þig í rúminu þó þú getir ekki sofnað

Hvað er til ráða þegar þú liggur andvaka í rúminu og ert búinn að telja allar kindur landsins? Samkvæmt rannsókninni áttu ekki að halda áfram að reyna.

„Þannig ferðu að tengja andvökuna við rúmið þitt,“ segir Robbins. Það á að taka 15 mínútur að meðaltali að sofna, en sé liðinn mikið lengri tími er betra að yfirgefa rúmið.

„Breyttu um umhverfi og gerðu eitthvað sem krefst ekki hugsana, svo sem að brjóta saman sokka.“

Mýta 5 - Notaðu blundinn á vekjaraklukkunni

Flest höfum við gerst sek um að ýta á Snooze-takkann þegar vekjaraklukkan hringir, með þá von að fimm mínútur í viðbót geri eitthvað gagn. Vísindamennirnir segja hins vegar að ráðlegast sé að fara strax á fætur.

„Líkami þinn fer aftur að sofa, en þetta er mjög laus og gæðalítill svefn.“

Fólk ætti heldur að draga frá gluggatjöldunum til þess að fá sem mesta birtu inn í herbergið til þess að hjálpa því að vakna.

Mýta 6 - Hrotur eru alltaf meinlausar

Hrotur geta vissulega verið meinlausar, en þær geta líka verið merki um kæfisvefn, en þeir sem þjást af kæfisvefni eru líklegri til þess að þróa með sér háan blóðþrýsting, hjartsláttartruflanir og eiga auknar líkur á að fá hjartaáfall.

 Umfjöllun BBC.

mbl.is