Samsung í samanbrjótanlegri krísu

Galaxy Fold var kynntur til sögunnar á vörukynningu í febrúar. ...
Galaxy Fold var kynntur til sögunnar á vörukynningu í febrúar. Prufueintök voru send til tækniblaðamanna, sem greindu svo frá því að skjár símans hefði verið til vandræða. Nú hefur útgáfunni verið frestað um óákveðinn tíma. AFP

Samsung stendur nú frammi fyrir risastórri áskorun, samkvæmt sérfræðingum sem rætt hafa við AFP-fréttastofuna um þá ákvörðun fyrirtækisins að fresta útgáfu Galaxy Fold-snjallsímans, sem átti að koma á almennan markað í Bandaríkjunum á föstudag.

Suður-kóreska tæknifyrirtækið staðfesti í gær að það hygðist fresta útgáfu snjallsímans um óákveðinn tíma, þar sem hann „þarfnast frekari umbóta“, eins og það er orðað í fréttatilkynningu frá Samsung. Gefin verður út ný útgáfudagsetning á næstu vikum.

Galaxy Fold er samanbrjótanlegur, með tveimur skjáum sem svo sameinast í einn stóran skjá þegar síminn er opnaður.

Síminn var sendur til tækniblaðamanna víða um heim á undanförnum vikum og lýstu þó nokkrir þeirra yfir vonbrigðum með þessa framúrstefnulegu græju – enda kom það upp að skjáir símanna ýmist brotnuðu eða biluðu í höndum tækniblaðamanna, sem auðvitað deildu reynslu sinni með lesendum og áhorfendum.

Síminn hefur verið kynntur sem fyrsti samanbrjótanlegi snjallsíminn og hefur Samsung lagt mikið í að verða fyrsta fyrirtækið sem kynnir slíkan síma til sögunnar, en samkvæmt fréttaskýringu AFP eru fyrirtæki á borð við hið kínverska Huawei einnig að vinna í sambærilegri tækni.

Svona lítur Samsung Galaxy Fold síminn út. Tveir skjáir verða ...
Svona lítur Samsung Galaxy Fold síminn út. Tveir skjáir verða að einum stórum þegar símanum er flett í sundur. AFP

Gallað flaggskip eyði trausti neytenda

Kim Dae-ho, markaðsgreinandi í Suður-Kóreu, segir við AFP að Samsung geti endurheimt traust viðskiptavina sinna svo lengi sem að fyrirtækið ræður bót á vandanum með skjáinn á Galaxy Fold og gefi út fullkominn Fold-síma eins fljótt og auðið er.

Hann segir að Samsung standi frammi fyrir sinni stærstu áskorun til þessa vegna þessa mál og að ef að fyrirtækinu takist að leysa vandann geti það leitt til frekari velgengni. Nú standi Samsung hins vegar á „gatnamótum örlaganna“.

Rob Enderle, sjálfstætt starfandi greinandi, segir við AFP að það að klúðra „flaggskips-söluvöru“ eins og Galaxy Fold er ætlað að vera, geti leitt til þess að viðskiptavinir leiti annað. Sé helsta tækniundrið í línu fyrirtækisins ekki að standa undir væntingum, treysti fólk því ekki að Samsung geti framleitt gæðavörur.

„Það getur valdið ótrúlegum skaða,“ segir Enderle og bætir við að þetta gæti reynst gott fyrir Huawei, sem hefur sótt að Samsung á undanförnum mánuðum.

Óvíst er hvenær síminn kemur í almenna sölu, enda frekari ...
Óvíst er hvenær síminn kemur í almenna sölu, enda frekari umbóta þörf. AFP

Gera ekki sömu mistök og með Galaxy Note 7

Kim Dae-ho segir að þrátt fyrir því að álitshnekkir fylgi því til skamms tíma að fresta útgáfu símans, sé Samsung mögulega að koma í veg fyrir að fyrirtækið geri sömu mistök og árið 2016, þegar fyrirtækið setti Galaxy Note 7 á markað, en þeir símar kostuðu fyrirtækið gríðarlega fjármuni, enda áttu þeir það til að ofhitna og brenna og valda eigendum sínum meiðslum.

„Árið 2016 hafði Samsung of mikið sjálfstraust í garð eigin tækni,“ segir Kim og bætir við að fyrirtækið  hafi ekki brugðist nægilega hratt við fregnum af því að Note-símar væru að springa. „Því varð skaðinn gríðarlegur,“ segir Kim.

Brotinn skjár er vissulega ekki jafn alvarlegt mál og sími sem kviknar ítrekað í, en Kim segir að með því að fresta útgáfunni sé Samsung að grípa til aðgerða til þess að forða sambærilegum skandal og skók fyrirtækið og kostaði það formúgu fjár árin 2016 og 2017.

mbl.is
Gefins - áttu klink sem þú mátt missa?
Kattholt þiggur með þökkum smámynt (hvaðan sem er). Þetta fer til að fjármagna...
NP Þjónusta
NP Þjónusta Annast liðveislu við bókhaldslausnir o.þ.h.. Hafið samband í síma 83...
Húsnæði óskast í sumar í Hafnarfirði.
Húsnæði óskast frá 15/06-15/09, í 221 Hafnarfjarði, 3-4 svefnherbergi. Helst með...
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...