Einn stofnenda vill leysa upp Facebook

Hughes segir þá eina leið færa að leysa upp Facebook …
Hughes segir þá eina leið færa að leysa upp Facebook til að koma á heilbrigðri samkeppni. AFP

„Það er kominn tími til að leysa upp Facebook.“ Þetta er á meðal þess sem Chris Hughes segir í stórri aðsendri grein í New York times, sem birt var í dag. Hughes er einn þeirra sem ásamt Mark Zuckerberg stofnaði samfélagsmiðilinn Facebook á háskólaárum þeirra í Harvard stuttu eftir aldamót. 

Hughes hefur ekki starfað fyrir Facebook síðastliðinn áratug en hann segir ástæðuna fyrir því að hann stígur nú fram vera að hann finni fyrir ábyrgð vegna þess sem fyrirtækið Facebook er orðið. „Og vegna þess að ég er reiður yfir því að þráhyggja Marks [Zuckerberg] um vöxt fyrirtækisins hafi valdið því að hann fórnaði öryggi fyrir smelli,“ segir Hughes. 

Fyrirtækið hafi of mikið vald á almannaumræðu

Í myndbandi sem New York Times birti með frétt sinni er Hughes tíðrætt um það ógnarhald sem Facebook hefur á almannaumræðu og upplýsingunum sem það býr yfir. Þá leggur hann áherslu á að vegna Facebook sé öðrum aðilum næsta ómögulegt að koma á fót samkeppnishæfum samfélagsmiðlum því Facebook annaðhvort yfirtaki þá áður en þeir verða of stórir eða hermi eftir því sem þeir gera. 

Þá bendir hann á þá staðreynd að 84% þess fjár sem fer í auglýsingar á samfélagsmiðlum renni til Facebook, en aðrir gríðarstórir samfélagsmiðlar, svo sem Instagram og Whatsapp, séu í eigu Facebook. 

Hughes er ósáttur við þann stað sem fyrirtækið sem hann …
Hughes er ósáttur við þann stað sem fyrirtækið sem hann tók þátt í að stofna er komið á. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hughes segir að fyrrverandi samstarfsmaðurinn Zuckerberg sé ekki vondur maður, en gagnrýnir hann þó harðlega. „Meira að segja Mark [Zuckerberg] hefur sjálfur sagt að hann og Facebook-teymið hafi of mikið vald yfir almannaumræðu.“

Vill leysa málið í tveimur skrefum

Hughes leggur til tveggja þrepa aðferð til þess að takast á við Facebook. Fyrst þurfi stjórnvöld að leysa fyrirtækið upp. Stjórnvöld hafi meðal annars vald til þess að láta Facebook draga aftur yfirtökur á miðlunum Instagram og Whatsapp, en þá geti komist á heilbrigð samkeppni á samfélagsmiðlamarkaði.

Næst þurfi að stofna nýtt embætti sem „verndar Bandaríkjamenn frá Facebook og öðrum viðlíka fyrirtækjum,“ segir Hughes og bætir við: „Við treystum ekki flugfélögum eða lyfjafyrirtækjum til þess setja sér sjálf reglur um starfsemina sína, og við ættum ekki að treysta samfélagsmiðlafyrirtækjum til þess heldur.“

Myndbandið í heild má sjá hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert