Bezos kynnir nýtt tunglfar

Bezos sagði að tími væri kominn til að snúa aftur …
Bezos sagði að tími væri kominn til að snúa aftur til tunglsins. AFP

Auðkýfingurinn Jeff Bezos, stofnandi netsölurisans Amazon, hefur kynnt frumgerð af nýju tunglfari sem á að geta ferjað búnað og menn til tunglsins fyrir árslok 2024.

„Það er kominn tími til að snúa aftur til tunglsins, í þetta sinn til að halda kyrru fyrir,“ sagði Bezos á kynningunni sem fram fór í gærkvöldi í Washingtonborg. Meðal gesta voru hugsanlegir viðskiptavinir auk embættismanna frá NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna.

Tunglfarið, sem nefnist Blue Moon, á að geta borið nægt eldsneyti til að fara frá jörðu til tunglsins. Þar á það að geta sent frá sér allt að fjóra sjálfkeyrandi könnunarjeppa og einnig skotið upp gervihnöttum á sporbraut um tunglið.

Að sögn Bezos er markmiðið að Blámáninn lendi á suðurpól tungslins, þar sem ís hefur fundist í gígum. Hægt verði að nota vatnið úr þeim ís til að búa til vetni, sem síðan geti knúið geimfarið fyrir frekari ferðir innan sólkerfisins.

Bezos hefur verið á meðal ríkustu manna heims um nokkurra …
Bezos hefur verið á meðal ríkustu manna heims um nokkurra ára skeið. AFP

Aðgangsmiðinn alltof dýr

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta tilkynnti í marsmánuði að hún hygðist koma bandarískum geimförum aftur til tunglsins fyrir árslok 2024.

Í ræðu sinni sagði Bezos að geimferðafyrirtæki hans, Blue Origin, myndi geta uppfyllt það markmið. Það væri þó aðeins sökum þess að fyrirtækið hóf að hanna tunglfarið árið 2016.

Hann sagðist einnig vilja bæta aðgengi að tunglinu, þar sem hans framtíðarsýn sé sú að fólk geti búið og starfað í geimnum.

„Aðgangsmiðinn til að fá að gera áhugaverða hluti í geimnum núna er alltof dýr vegna þess að alla innviði vantar.“

mbl.is