Ísraelskur njósnabúnaður í gegnum WhatsApp

GABRIEL BOUYS

Tölvuþrjótar gátu komið eftirlitshugbúnaði fyrir í snjallsímum og öðrum snjalltækjum með því að nýta sér lélegar varnir í skilaboðaforritinu WhatsApp. Stjórnendur WhatsApp, sem er í eigu Facebook, hafa staðfest þetta og að árásir þeirra hafi beinst gegn hópi notenda og árásin hafi verið skipulögð af sérfræðingi.

Búið er að laga gallann og var það gert á föstudag samkvæmt fréttum BBC og Guardian. 

Í frétt Financial Times kemur fram að árásin var skipulögð af ísraelsku öryggisfyrirtæki. Í gær hvatti WhatsApp alla notendur forritsins, 1,5 milljarða alls, til að uppfæra smáforritið og hvatti þá til gætni. Árásin var fyrst uppgötvuð fyrr í mánuðinum. 

WhatsApp er í eigu Facebook.
WhatsApp er í eigu Facebook. AFP

Eftirlitshugbúnaðurinn var settur upp í tækjum fólks með símhringingum í gegnum WhatsApp-forritið. Jafnvel þó svo að viðkomandi svaraði ekki símtalinu var hægt að koma búnaðinum fyrir í tæki hans. 

Ísraelska fyrirtækið sem stendur á bak við árásina á að vera netvopnasali. Helsti hugbúnaður fyrirtækisins, Pegasus, getur safnað viðkvæmum upplýsingum saman úr tækjum í gegnum hljóðnema og myndavélar auk þess að staðsetja viðkomandi. Tæknin er meðal annars nýtt af leyniþjónustustofnunum ríkja. 

mbl.is