Kynntu rafknúinn kappakstursbíl

Team Spark, kappaksturs- og hönnunarlið Háskóla Íslands, tekur þátt í …
Team Spark, kappaksturs- og hönnunarlið Háskóla Íslands, tekur þátt í þremur alþjóðlegum Formula Student mótum verkfræðinema, á Ítalíu, Spáni og í Austurríki, með kappakstursbílinn TS19 – Silfru í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Team Spark, kappaksturs- og hönnunarlið Háskóla Íslands, afhjúpaði kappakstursbílinn  TS19 – Silfru á Háskólatorgi í dag að viðstöddu fjölmenni. Liðið tekur þátt í þremur alþjóðlegum Formula Student mótum verkfræðinema, á Ítalíu, Spáni og í Austurríki, með kappakstursbílinn í sumar.

Um 40 nemendur hafa komið að smíði bílsins í vetur og m.a. fengið vinnuna metna sem hluta af námi sínu við Háskóla Íslands. Flestir þeirra stunda nám í verkfræði en einnig eru liðsmenn úr stærðfræði, eðlisfræði og stjórnmálafræði.

Bíllinn, sem fékk nafni Silfra, er rafknúinn. Fram kemur í tilkynningu frá háskólanum að hönnun slíks bíls er mun flóknari en þróun bensínsbíls þar sem mun meiri kröfur eru gerðar til rafmagnsbíla en bensínbíla í Formula Student keppnum. Team Spark smíðar nýjan bíl frá grunni á hverju ári og er misjafnt milli ára hversu miklar breytingar eru gerðar á hönnun bílsins. Í fyrra smíðaði liðið í fyrsta sinn svokallaðan einbolung (e. monocoque) og slík hönnun varð einnig fyrir valinu nú. Þá eru í bílnum um 400 skynjarar sem eru tengdir tölvu þannig að liðið getur í fyrsta sinn fylgst með öllum kerfum bílsins í beinni útsendingu.

Bíllinn, sem fékk nafni Silfra, er rafknúinn en hönnun slíks …
Bíllinn, sem fékk nafni Silfra, er rafknúinn en hönnun slíks bíls er mun flóknari en þróun bensínsbíls þar sem mun meiri kröfur eru gerðar til rafmagnsbíla en bensínbíla í Formula Student keppnum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ætla að standast öll próf

Í sumar fer Team Spark til Ítalíu, Austurríkis og Spánar og keppir þar við önnur háskólalið. Þetta er í fyrsta sinn sem liðið stefnir á þrjár keppnir.

Vífill Harðarson, framkvæmdastjóri Team Spark, segir að markmið sumarsins séu mörg og snúi að  hinum ýmsu kerfum bílsins. „En almennt ætlum við okkur að bæta gagnasöfnun og röksemdafærslu svo við getum útskýrt betur fyrir dómurum þær ákvarðanir sem voru teknar um hönnun eða framleiðslu bílsins. Svo ætlum við auðvitað að standast öll próf sem bíllinn þarf að komast í gegnum til þess að mega aka á brautunum í mótunum,“ segir Vífill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert