FDA samþykkir íslenskan nefúða við flogum

Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Nefúði sem bráðameðferð við flogum, sem á uppruna sinn í rannsóknum Sveinbjörns Gizurarsonar prófessors við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, var nýlega samþykktur til sölu hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu FDA. Lyfið fer nú í sölu í Bandaríkjunum og er þetta fyrsta nefúðalyfið við þessum sjúkdómi sem kemur á markað.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Háskólanum að lyfið, sem kallast Nayzilam, sé nefúði og ætlað við bráðameðhöndlun við svokölluðum bráða- eða raðflogum. Lyfinu, sem er lyfseðilsskylt, er ætlað að auka lífsgæði flogaveikra sem geti þá sjálfir gripið til lyfsins, finni þeir fyrir aðdraganda floga. Eins geta fjölskylda, vinir og samstarfsfélagar hins flogaveika auðveldlega gefið viðkomandi lyfið.

Uppruna flogaveikilyfsins í formi nefúðans má rekja til rannsókna Sveinbjörns Gizurarsonar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Rúm 30 ár eru frá því hann tók þátt í einum af fyrstu rannsóknarhópunum sem skoðuðu hvort lina mætti krampa með nefúða, „nokkuð sem loksins hefur tekist fyrir tilstuðlan íslensks hugvits,“ segir í tilkynningunni. „Það er verulega ánægjulegt að vera fyrstur með svona lyfjaform á markað þegar svo margir hafa reynt að þróa bráðalyf eins og þetta,“ er haft eftir Sveinbirni.

Hugverkaréttur á lyfinu Nayzilam var strax varinn með einkaleyfi, sem hefur leitt til þess að bandarísku lyfjaþróunarfyrirtækin Ikano Therapeutics, Upsher-Smith, Proximagen og lyfjafyrirtækið UCB, sem starfar frá Brussel, hafa lagt út í verulega vinnu, nauðsynlegar klínískar tilraunir og nýskráningu á lyfinu. FDA samþykkti svo lyfið 17. maí sl.  og fer það í kjölfarið á markað fyrir bandaríska neytendur.

Hátæknifyrirtækið Hananja ehf. og HÍ hafa gert nytjaleyfissamning við lyfjafyrirtækið UCB, sem mun framleiða, markaðssetja og selja lyfið.

Nayzilam er fyrsta nefúðalyfið sem byggist á þessu einkaleyfi og fyrsta varan sem kemst á alþjóðlegan markað, sem hefur farið í gegnum Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala.

mbl.is

Bloggað um fréttina