Heimta gögn rússneskra Tinder-notenda

Samkvæmt lögunum þurfa fyrirtækin að vera reiðubúin að deila allt …
Samkvæmt lögunum þurfa fyrirtækin að vera reiðubúin að deila allt að sex mánaða gömlum notendagögnum sínum með rússnesku leyniþjónustunni FSB. Ljósmynd/GoTinder

Rússnesk yfirvöld hafa farið þess á leit við stefnumótaforritið Tinder að það afhendi gögn um skilaboð og ljósmyndir notenda sinna í Rússlandi. Með nýlegri lagasetningu var 175 fyrirtækjum gert skylt að geyma gögn á rússneskum vefþjóni í sex mánuði.

Fyrirtæki sem neita að verða við þessu eiga það á hættu að vera bönnuð í landinu. Meðal starfsemi fyrirtækja sem bönnuð hefur verið í Rússlandi er starfsemi einkaskilaboðaforritsins Telegram. Stjórnendur Telegram segja bannið ganga gegn stjórnarskrá, en notendur forritsins hafa gripið til þess ráðs að nota það í gegn um VPN-tengingar.

Í frétt BBC segir að Tinder hafi gefið það út að fyrirtækið muni láta eftir stjórnvöldum, en að það þýddi alls ekki að notendagögnum yrði deilt með nokkurri rússneskri eftirlitsstofnun eða yfirvöldum þar í landi. Tinder gaf engin nánari svör um hver næstu skref fyrirtækisins yrðu.

Samkvæmt lögunum þurfa fyrirtækin að vera reiðubúin að deila allt að sex mánaða gömlum notendagögnum sínum með rússnesku leyniþjónustunni FSB.

Gagnrýnendur segja að með þessu séu yfirvöld í herferð gegn internetinu með aukinni ritskoðun, en yfirvöld segjast einungis vera að reyna að koma í veg fyrir hryðjuverka- og tölvuárásir með aðgerðunum.

mbl.is