Hver rafbílaeigandi smiti tvo aðra

Samkvæmt samkomulagi Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur mun hvor aðili um …
Samkvæmt samkomulagi Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur mun hvor aðili um sig leggja til 20 milljónir króna á ári næstu þrjú árin til þess að styðja við uppsetningu rafhleðslustöðva í fjöleignarhúsum. mbl.is/​Hari

Í rafbílavæðingu Reykjavíkurborgar skiptir hvað mestu máli að styðja fjöleignarhús við uppsetningu rafhleðslustöðva. Rafbílaeigendur vilja geta hlaðið bílinn heima við og 80% húsnæðis borgarinnar er í fjöleignarhúsi.

Það er því mikilvægt að koma þeim bolta af stað, að sögn Guðmundar Benedikts Friðrikssonar, skrifstofustjóra skrifstofu umhverfisgæða Reykjavíkurborgar, sem hélt kynningu á opnum fundi skipulags- og samgönguráðs og umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Sagði Guðmundur að kannanir í Noregi sýndu að íbúar í sérbýlishúsum hlæðu rafbíla sína heima við í 97% tilfella, á meðan íbúar í fjöleignarhúsum gerðu það aðeins í 61% tilfella. 

„Í Noregi segja menn að þetta sé ‚the tipping point‘, að boltinn fari að rúlla þegar íbúar fjöleignahúsa fái sér rafbíl,“ sagði Guðmundur, og að hver rafbílaeigandi smitaði að jafnaði 2,4 í að fá sér rafbíl.

„Þegar byrjað er að leitast eftir að setja upp hleðslustöðvar eru 15% íbúa komnir á rafbíl, en næsta ár á eftir þegar búið er að setja upp hleðslustöðvar eru 30% íbúa farnir að óska eftir hleðslustöð. Þetta gerist mjög hratt þegar það fer að rúlla.“

Samkvæmt samkomulagi Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur mun hvor aðili um sig leggja til 20 milljónir króna á ári næstu þrjú árin til þess að styðja við uppsetningu rafhleðslustöðva í fjöleignarhúsum. Húsfélög geta sótt um styrk vegna uppsetningar, en hann getur hljóðað upp á allt að 1,5 milljónir króna eða allt að 67% heildarkostnaðar við uppsetningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina