Vilja rafmagnsstauraklifur burt úr Fortnite

Milljónir manna um heim allan spila Fortnite.
Milljónir manna um heim allan spila Fortnite.

Ísraelskt orkufyrirtæki hefur nú ritað framleiðanda Fortnite tölvuleiksins bréf og farið fram á að sá möguleiki að leikmenn geti klifrað upp rafmagnsstaura verði fjarlægður úr leiknum.

Fortnite nýtur mikilla vinsælda um heim allan og tugir milljóna spila leikinn. Ísraelska orkufyrirtækið hefur hins vegar nú vakið athygli á að persónur í leiknum geti klifrað upp rafmagnsstaura án nokkurra hindrana og að slíkt geti leitt til þess að börn i hópi spilara hermi eftir þessa hættulegu hegðun.

Reuters fjallar um málið og segir ísraelska orkufyrirtækið hafa „um árabil“ reynt, með fræðsluherferðum, að sporna gegn slíkri hegðun hjá ísraelskum ungmennum. „Þið berið ábyrgð á öryggi notendanna,“ sagði í bréfinu. „Við biðjum ykkur því að grípa til aðgerða og fjarlægja efni sem hvetur til áhættuhegðunar tengdri rafmagnsnotkun.“

Epic Games, framleiðandi Fortnite, hefur ekki sent frá sér viðbrögð við bréfinu. 

Í apríl á þessu ári samþykkti íraska þingið bann við Fortnite og öðrum vinsælum net- og tölvuleikjum og með vísan í „neikvæð“ áhrif þeirra, ekki hvað síst á ungt fólk í landi sem lengi hefur búið við stríð og blóðsúthellingar. Þá er bann gegn Fortnite einnig í gildi indverska fylkinu Gujarat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert