Heilbrigð sál í hraustum líkama

Rannsóknir sýna sterkt samband milli líkamlegrar hreyfingar og betra sjálfstrausts.
Rannsóknir sýna sterkt samband milli líkamlegrar hreyfingar og betra sjálfstrausts. Haraldur Jónasson/Hari

Heilbrigð sál í hraustum líkama (Mens sana in corpore sano) er orðatiltæki sem flestir kannast við.

Það kemur upprunalega frá rómverska skáldinu Juvenal, sem var uppi 200 árum eftir fæðingu Krists, segir í grein Hermundar Sigmundssonar, pró­fess­ors í sál­fræði við Tækni- og vís­inda­há­skól­ann í Þránd­heimi og Há­skól­ann í Reykja­vík, sem birtist í Sunnudagsmogganum um liðna helgi. 

Hermundur Sigmundsson
Hermundur Sigmundsson Kristinn Magnússon

Rannsóknir sýna að líkamleg hreyfing hefur jákvæð áhrif á bæði hreyfifærni (fínhreyfingar og grófhreyfingar) og hreysti. Hreyfifærni er mikilvæg til að geta tekið þátt í leik og starfi. Hreysti tengist sterkt góðri heilsu. Rannsóknir okkar hafa sýnt að sterkt samband er á milli hreyfifærni og hreysti hjá fjögurra til tíu ára börnum og hjá einstaklingum eldri en 65 ára. Það þýðir að einstaklingur með góða hreyfifærni er oftar í góðu líkamlegu ástandi eða einstaklingur í góðu líkamlegu ástandi er oftar með góða hreyfifærni. Það að stunda reglulega hreyfingu hefur jákvæð áhrif á taugakerfið. Það hefur einnig áhrif á hormónaflæði sem hefur jákvæð áhrif á okkar andlegu líðan. Rannsóknir sýna einnig sterkt samband milli líkamlegrar hreyfingar og betra sjálfstrausts. Það að vera í góðu líkamlegu formi gerir síðan alla hreyfingu auðveldari, þannig að til verður jákvæður hringur: hreyfing - betri hreyfifærni - betri hreysti - meiri hreyfing.

Í sambandi við hreysti þá er mikilvægt að hafa í huga að markmiðið hlýtur að vera að sem flestir hreyfi sig í 30-60 mínútur á dag, óháð aldri.

Hvernig hreyfingu geta allir stundað?

1. Fara í göngutúr

2. Fara út að skokka eða hjóla

3. Fara í sund og synda

4. Fara í líkamsrækt

Hérna þurfa bæði skólar, íþróttafélög og sveitarfélög að taka sitt hlutverk alvarlega.

Skólar: leikskólar eiga að stuðla að hreyfingu í gegnum leik í að lágmarki eina klukkustund á dag.

Grunnskólar eiga að stuðla að hreyfingu minnst þrisvar í viku í eina og hálfa klukkustund. Helst ættu grunnskólar að hefja skóladaginn með 30-60 mínútna hreyfingu fyrir alla nemendur. Rannsóknir sýna að hreyfing í klukkutíma í byrjun skóladags skapar aukna ró og einbeitingu í þrjá til fjóra tíma á eftir.

Þannig skapast betri grundvöllur fyrir því að nám eigi sér stað. Því að einbeiting og fókus er grundvöllur alls náms, eða „opnar dyr“ að námi. Framhaldsskólarnir ættu að hafa hreyfingu minnst þrisvar í viku. Þeir ættu einnig að bjóða upp á aðstöðu fyrir líkamsþjálfun fyrir nemendur. Í þessu samhengi má nefna að við flesta háskóla Noregs rekur stúdentaþjónustan líkamsræktarstöðvar fyrir stúdenta og starfsmenn háskólanna. Árskortið kostar 20.000 fyrir nemendur og 24.000 fyrir starfsmenn.

Íþróttafélög: íþróttafélög eiga að sjálfsögðu að skapa möguleika fyrir sem flesta að vera með og stunda íþróttir óháð getu og afreksíþróttum. Það má segja að íþróttafélögin eigi að hafa tvö lykilmarkmið: búa til góðar aðstæður til að þau sem vilja geti orðið afreksíþróttafólk og stuðla að því að allir sem vilja geti verið í íþróttum út af félagsskapnum og hreyfingunni, líka þau sem ekki ætla sér að verða afreksíþróttafólk. Það má ekki vera þannig að þau börn sem ekki stefna á afreksmennsku detti úr íþróttum og fái enga hreyfingu. Við verðum að muna að það eru margir sem ekki eru með í neinum íþróttum. Með því að fá þá einstaklinga inn í íþróttafélögin getum við aukið hreyfingu þeirra og þar með heilbrigði.

Sveitarfélög: byggjum upp góðar aðstæður fyrir hreyfingu fólks. Það getur verið í formi göngustíga, hjólastíga, opinna svæða þar sem hægt er að stunda ýmsa hreyfingu, leikvalla fyrir börn þar sem hægt er að hlaupa, klifra, hoppa, henda og sparka bolta.

Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að reyna að fá fólk til að auka hreyfingu sína á hverjum degi.

Ef við getum, tökum tröppurnar í stað lyftunnar. Göngum eða hjólum í vinnuna eða í sund.

Stuðlum að því að börn og unglingar geti gengið eða hjólað í skólann eða í sína frístundaiðkun.

Aukum hreyfingu og öðlumst þar með betri heilsu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »