Snjallflagan fylgist með klósettferðunum

Frá snjallskrifstofunum í Amsterdam í Hollandi.
Frá snjallskrifstofunum í Amsterdam í Hollandi. Ljósmynd/Locatify

Íslenska staðsetningarfyrirtækið Locatify vinnur nú að athyglisverðu verkefni í Hollandi. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem sjálfboðaliðar, sem vinna í opnu rými, ganga um með armbönd sem í er grædd staðsetningarflaga.

Flagan greinir og heldur utan um hreyfingar starfsmanna, hve oft er farið á klósettið, hve lengi starfsmenn sitja kyrrir og fleira þvíumlíkt. Úr gögnunum er ýmislegt unnið og á gervigreind að nýta upplýsingarnar til að leiðbeina starfsfólki í vinnunni. Þannig gæti starfsmaður, sem hefur setið kyrr of lengi, fengið ábendingu um að nú væri tilvalið að standa upp og rétta úr sér.

Verkefnið ber heitið Queen B og er unnið í samstarfi við Studio Lonk, sem er hollenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í staðsetningarþjónustu.

Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Locatify, ítrekar að hér sé um tilraunaverkefni að ræða og það verði að koma í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér. Þegar blaðamaður viðrar áhyggjur sínar af upplýsingasöfnun með tilliti til persónuverndar segist Steinunn aðspurð ekki viss hvort hún væri sjálf til í að bera slíkan staðsetningarbúnað. Rétt sé þó að taka fram að allir þeir, sem taka þátt í verkefninu, séu sjálfboðaliðar og gögnunum sé ekki komið til neinna yfirmanna.

Locatify hefur unnið í ýmsum verkefnum á sviði staðsetningarþjónustu. Má þar nefna sérstök kennsluforrit, ratleiki sem byggja á staðsetningargreiningu, auk búnaðs sem komið er fyrir í leiðarvísum á söfnum og tryggja að leiðsögnin, sem fólk fær að heyra í heyrnartólum, taki mið af því hvar gestir eru staddir á safninu.

mbl.is