Borguðu lausnargjald fyrir tölvukerfi

Sveitarfélögin tvö í Flórída greiddu bæði lausnargjald með bitcoin.
Sveitarfélögin tvö í Flórída greiddu bæði lausnargjald með bitcoin. AFP

Bær í Flórída-ríki borgaði hökkurum hálfa milljón dollara, eða því sem nemur rúmlega 62 milljónum króna, eftir að hafa lent í gagnagíslatöku. Sveitarfélög í Flórída hafa nú á síðustu tveimur vikum borgað um 1,1 milljón dollara vegna gagnagíslaforrita. 

Yfirvöld í bænum Lake City kusu að greiða hökkurunum með sýndarfénu bitcoin eftir að tölvukerfi bæjarins höfðu legið niðri í tvær vikur. Þá greiddu yfirvöld í úthverfinu Riviera Beach hökkurum um 600.000 dollara eftir álíka tölvuárás, en starfsmenn sveitarfélagsins höfðu ekki aðgang að mikilvægum gögnum og tölvupósti sínum.

Vátryggjandi bæjarfélagsins samdi við hakkarana um lausnargjald fyrir gögnin sem nam um 42 bitcoinum, eða um hálfri milljón dollara. Samkvæmt frétt BBC töldu yfirvöld að greiðsla lausnargjaldsins væri skilvirkasta leiðin til að endurheimta aðgang að tölvukerfi sínu og gögnum. 

Samkvæmt Stephen Witt, bæjarstjóra Lake City, greiða tryggingar stærsta hluta lausnargjaldsins, en um 10.000 dollarar verða greiddir með skattfé íbúa. 

Gagnagíslaárásir hafa aukist verulega á síðustu árum. Bæjaryfirvöld í smábæ í Alsaka hófu til að mynda notkun á ritvélum aftur í fyrra eftir að tölvukerfi þeirra varð fyrir gagnagíslaárás. Þá hafa slíkar árásir einnig haft áhrif á bandarísku borgirnar Baltimore og Atlanta sem og smábæi í Kaliforníu, Norður-Karólínu og Ohio. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert