Lauma njósnaforriti í síma ferðalanga

Xi Jinping, forseti Kína, hefur varið heljartak stjórnvalda á lýðnetinu. …
Xi Jinping, forseti Kína, hefur varið heljartak stjórnvalda á lýðnetinu. Það auki öryggi landsmanna. AFP

Kínverskir landamæraverðir hafa um nokkurt skeið laumað njósnaforriti í síma erlendra ferðamanna sem sækja Kína heim. Forritið sækir upplýsingar úr símanum, svo sem tölvupósta, smáskilaboð og tengiliði, auk þess að fylgjast með staðsetningu.

Þetta leiðir rannsókn breska blaðsins Guardian og samstarfsaðila þess, þeirra á meðal Süddeutsche Zeitung og New York Times, í ljós.

Aðgerðin nær þó ekki til allra ferðalanga á leið til Kína heldur hefur hún beinst að hinu afskekkta héraði Xinjiang í norðvesturhluta landsins, sem liggur að Afganistan, Rússlandi, Kirgistan og fleiri ríkjum.

Er það einkum á landamærunum að Kirgistan sem landamæraverðir fara fram á að skima yfir farsíma ferðalanga og koma forritinu þá fyrir í laumi.

Edin Omanovic, talsmaður samtakanna Privacy International, lýsir niðurstöðum rannsóknarinnar sem „ógnvekjandi í ríki þar sem það að hlaða niður röngu forriti eða lesa ranga fréttagrein getur sent þig í fangelsi“. Talið er að forritið, sem hannað var af kínversku fyrirtæki, leiti í gegnum Android-síma og beri innihald saman við ítarlegan svartan lista stjórnvalda af efni sem þau telja óæskilegt. Á listanum má meðal annars finna rit Dalai Lama, andlegs leiðtoga Tíbeta, áróðursrit Al-Kaída og sjálfshjálparbókina 33 stefnur fyrir stríð eftir bandaríska rithöfundinn Robert Greene.

Ekki er hægt að koma forritinu fyrir á iPhone-símum enda hefur framleiðandinn Apple verið þekktur fyrir að leggja mun meira upp úr friðhelgi notenda sinna en Google, framleiðandi Android, og leitað leiða til að koma í veg fyrir að stjórnvöld, og einkafyrirtæki, geti komist yfir persónuupplýsingar notenda sinna.

Apple leggur mikið upp úr friðhelgi notenda sinna, og hefur …
Apple leggur mikið upp úr friðhelgi notenda sinna, og hefur tekjur sínar upp úr öðru. AFP

Hefur Apple til að mynda staðið í dómsmálum í Bandaríkjunum vegna þess að fyrirtækið neitar að koma svokallaðri bakdyraleið (e. backdoor) fyrir í símum sínum, sem myndi þýða að bandarísk stjórnvöld gætu komist yfir upplýsingar í iPhone-símum kjósi þau að gera það. Fæli slík bakdyraleið enda í sér endalok dulkóðaðra upplýsinga. Ekki er hægt að rjúfa dulkóðun. Séu upplýsingar aðgengilegar einhverjum, þá eru þær einfaldlega ekki dulkóðaðar.

Í stað forritsins eru notendur Apple-síma beðnir um að afhenda landamæravörðum opinn símann og því næst farið með hann í annað herbergi þar sem honum er stungið í samband og upplýsingum safnað.

Um 100 milljónir manna heimsækja Xinjiang árlega samkvæmt tölum frá kínverskum stjórnvöldum en landamærin yfir til Kirgistan fylgja hinum forna Silkivegi.

AFP
mbl.is