Rafbílar losa 75-80% minna

Rafbílar losa 4-4,5 sinnum minna af gróðurhúsalofttegundum við íslenskar aðstæður …
Rafbílar losa 4-4,5 sinnum minna af gróðurhúsalofttegundum við íslenskar aðstæður en bensín- og díselbílar. Það er mýta að þeir séu síður umhverfisvænir, þeir eru margfalt umhverfisvænni. Aukna kolefnisfótsporið sem þeir mynda við framleiðslu jafnast út á rúmu ári af akstri.

Frá því að rafbíll er framleiddur og þar til hann hefur verið keyrður 220 þúsund kílómetra við íslenskar aðstæður losar hann 4-4,5 sinnum minna af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytisknúinn bíll sem lifir nákvæmlega sama lífi.

Kolefnisfótspor rafbíla er meira rétt við framleiðslu bílsins vegna fótspors rafhlöðunnar sjálfrar, framleiðsla rafbíls losar um 50% meiri gróðurhúsalofttegundir en bensínbíls, en um leið og rafbíllinn er kominn á ferð jafnast það út og hann þýtur fram úr bensínbílnum.

Það er sem sagt töluvert umhverfisvænna að keyra rafbíl en annars konar bíl. Ekki síst í ljósi þess að íslensk raforka er mun umhverfisvænni en víðast annars staðar í heiminum. Ísland er kjörlendi fyrir rafbíla.

Á grafinu sést hvernig fótspor bensín- og díselbíla fer stigvaxandi …
Á grafinu sést hvernig fótspor bensín- og díselbíla fer stigvaxandi en rafbílar silast áfram línulega. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Ný skýrsla sem Orka náttúrunnar, ON, vann fyrir umhverfisráðuneytið sýnir þetta, að akstur rafbíls á Íslandi er „mjög umhverfisvænn“ kostur. Og hinu hefur verið haldið fram, ekki síst vegna umrædds fótspors rafhlöðunnar sjálfrar, en markmið skýrslunnar var einmitt að kanna „hvort helstu mýtur um rafbíla ættu við rök að styðjast,“ að sögn Berglindar Ránar Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra ON, sem segir þetta í tilkynningu.

„Niðurstöður skýrslunnar taka af allan vafa um að rafbílar eru mjög umhverfisvænn kostur hér á Íslandi,“ segir Berglind.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra tekur við skýrslunni á …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra tekur við skýrslunni á rafkubbi, eins og umhverfisráðherra sæmir. Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, lætur kubbinn af hendi eftir um árs vinnu að skýrslu um rafbíla. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Í skýrslunni segir að eftir því sem krafan um minni losun gróðurhúsalofttegunda varð háværari hafi einnig vaknað spurningar um hve umhverfisvænir rafbílar eru í raun og veru. Þessum spurningum er að einhverju leyti svarað með þessari nýju rannsókn, það er, niðurstaðan sýnir að jarðefnaeldsneytisknúnir bílar losa margfalt meiri gróðurhúsalofttegundir en rafbílar.

Hrein raforka ætti að vera nýtt í rafbíla

Næstum því 100% rafmagns á Íslandi er unnið úr endurnýjanlegri orku. Það gerir losunarhlutfall rafbílsins hér á landi margfalt lægra en annars staðar, því annars staðar þarf að notast við raforku sem var framleidd við mun verri aðstæður, til dæmis með kolum.

Tölurnar eru sláandi yfir það hve mörg grömm af koltvísýringi rafbíll losar á hverja framleidda kílówattstund miðað við rafbíla í öðrum löndum. Á meðan rafbíll á Íslandi losar 9,3g/CO2 eq/kWst losar meðalrafbíll innan Evrópusambandsins 276g/CO2 eq./kWst. Rafbíll sem keyrir aðeins á rafmagni unnu úr kolum losar 980g/CO2 eq./kWst.

Framleiðslan losar meira, en aksturinn losar miklum mun minna.
Framleiðslan losar meira, en aksturinn losar miklum mun minna. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Þetta þýðir að hér á landi eru rafbílarnir mun sneggri að vinna bug á forgjöfinni sem jarðefnaeldsneytisbílar hafa að upplagi. Raforkan hér er það umhverfisvæn að bílarnir eru á um einu og hálfu ári búnir að jafna út auknu losunina á framleiðslustiginu. Jafnvel ef um er að ræða stórar rafhlöður (85 kW) tekur það aðeins um 4-5 ár.

Meðal Íslendingur keyrir um 15.000 kílómetra á ári samkvæmt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og það getur tekið rafbílsökumann um 18.000 kílómetra að jafna út losunina á framleiðslustiginu.

„Ef gert er ráð fyrir 200.000 km lífstíma fyrir rafbíl annars vegar og bensín- og díselbíla hins vegar (200.000 km var að meðaltali áætlaður líftími rafbílanna í þeim rannsóknum sem skoðaðar voru) má áætla að það að keyra rafbíl á Íslandi leiði til 75-80% minni losunar á gróðurhúsalofttegundum,“ segir í skýrslunni.

mbl.is