Bráðnun suðurskauts að verða óafturkræf

Haldi Thwaites-jökullinn á suðurskautinu áfram að bráðna kann yfirborð sjávar …
Haldi Thwaites-jökullinn á suðurskautinu áfram að bráðna kann yfirborð sjávar að hækka um hálfan metra. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bráðnun jökla á suðurskautinu stefnir nú hraðbyri í að verða óafturkræf, jafnvel þótt dragi úr hlýnun jarðar. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, sem Guardian greinir frá.

Rannsóknin bendir til þess að óstöðugleiki Thwaites-jökulsins, sem er hluti af suðurskautsíshellunni, sé orðinn slíkur að sá tímapunktur nálgist nú að ómögulegt verði að koma í veg fyrir bráðnun hans með þeim afleiðingum yfirborð sjávar hækki um hálfan metra. Eru fleiri jöklar á Suðurskautslandinu sagðir vera álíka óstöðugir.

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á fimm jöklar á Suðurskautslandinu hörfuðu tvisvar sinnum hraðar á sl. sex árum, en þeir gerðu tíunda áratug síðustu aldar. Ísinn hopar þá ekki eingöngu við strandlengjuna, heldur hörfar hann líka innanlands og hefur íshellan á sumum stöðum minnkað um allt að 100 metra.

Mun halda áfram að gerast af sjálfsdáðum

Einna mest hætta á hækkun yfirborðs sjávar er talin stafa af Thwaites-jöklinum, sem er hluti af vesturíshellunni á suðurskautinu, samkvæmt rannsókn sem birt var í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences.

Risastór borgarís sést hér brotna frá íshellunni við Knox-strönd á …
Risastór borgarís sést hér brotna frá íshellunni við Knox-strönd á Suðurskautslandinu árið 2008. AFP

Guardian hefur eftir Alex Robel, aðstoðarprófessor við Georgia Institute of Technology, sem fór fyrir rannsókninni, að ef svo fari að bráðnun jökulsins reynist óafturkræf muni hann hverfa á næstu 150 árum jafnvel þótt hlýnun jarðar verði snúið við. „Þetta mun halda áfram að gerast af sjálfsdáðum og það er áhyggjuefni,“ sagði hann.

Íshellan á suðurskautinu er um átta sinnum stærri en sú sem er á Grænlandi og um 50 sinnum stærri en allir jöklar í fjöllum samanlagðir. Thwaites-jökullinn einn og sér inniheldur nægan ís til að hækka yfirborð sjávar á heimsvísu um hálfan metra.

Hlýnun jarðar hefur þegar leitt til þess að yfirborð sjávar fer hækkandi, sem aftur hefur leitt til aukinna sjávarflóða.

Hækkar um fimm metra hverfi suðurskautsísinn

Vísindamenn hafa hins vegar ekki treyst sér til að áætla hversu hratt suðurskautsíshellan muni hopa næstu áratugi og aldir, en útreikningar sem gerðir hafa verið í tölvuhermum hafa gefið til kynna að íshellan muni byrja að hopa verulega eftir um 600 ár. Slíkt getur þó gerst mun hraðar með áframhaldandi hlýnun jarðar og auknum óstöðugleika jöklanna.

„Þetta getur gerst á næstu 200-600 árum,“ segir Hélène Seroussi, vísindamaður hjá NASA. „Þetta veltur á landslagi berggrunnsins undir ísnum, sem við þekkjum ekki enn þá í miklum smáatriðum.“

Hverfi íshellan öll má gera ráð fyrir að yfirborð sjávar hækki um fimm metra, sem myndi færa strandbyggðir víða um heim á kaf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert