Bessadýr í góðum gír á tunglinu

Tunglið er ekki óbyggilegt lengur. Þar búa bessadýr, í það …
Tunglið er ekki óbyggilegt lengur. Þar búa bessadýr, í það minnsta í bili. AFP

Svokölluð bessadýr (e. tardigrades) gætu verið í þúsundatali á tunglinu við hestaheilsu. Bessadýr, sem stundum eru kölluð vatnabirnir, geta lifað við ýktar aðstæður. Þau þola hita allt upp að 150 gráðum og niður að næstum alkuli. Dýrin má finna um allar koppagrundir á jörðu, í fjöllum, eyðimörkum, þéttbýli og bakgörðum.

Dýrin voru á ferðalagi með ísraelskri geimflaug sem brotlenti á tunglinu í apríl en sú hafði ætlað að ná myndum af fylgihnettinum.

„Við trúum því að afkomulíkur bessadýranna séu [...] mjög miklar,“ segir Nova Spivack, einn stofnenda fyrirtækisins Arch Mission Foundation, einkafyrirtækisins sem sá um leiðangurinn, í samtali við BBC.

Margur er knár þótt hann sé smár. Það gildir um …
Margur er knár þótt hann sé smár. Það gildir um bessadýrin sem eru um millimetri að lengd. Ljósmynd/Wikipedia

Senda afrit af jörðinni, bækur, blóð og smádýr út í geim

Arch Mission Foundation heldur úti svokölluðu „afriti“ af jörðinni með broti af þekkingu mannsins, afriti af enskri útgáfu alfræðiorðabókarinnar Wikipedia, blóðsýni úr mönnum, nokkrum eintökum af klassískum heimsbókmenntum, auk úrtaks úr flóru og fánu jarðarinnar. Er þetta afrit, sem inniheldur 30 milljónir síðna af sögu mannkyns og jarðar, reglulega sent út í geim ef ske kynni að líf á jörðu færist, og geimverur kynnu að vilja endurtaka tilraunina. Þetta er ástæða þess að bessadýrin voru með í tunglförinni.

Fyrir flest dýr jarðarinnar væri tunglförin sem vítisför enda engu andrúmslofti eða vatni fyrir að fara á tunglinu. Bessadýrin eru þó þeirri náttúru gædd að geta nokkurn veginn farið í dá við erfiðar aðstæður. Í dáinu draga dýrin hausinn og átta fætur sína inn í búkinn og fara í ástand sem minnir á dauðann. Þá taka efnaskipti líkamans stakkaskiptum og verða um 0,01% af því sem eðlilegt þykir.

Þegar aðstæður eru betri geta dýrin síðan lífgað sig við og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Allir þessir þættir gera dýrið betur í stakk búið til að lifa í geimnum en dýr almennt, sem eru alls ekki búin undir það. Þannig varð dýrið það fyrsta til að lifa af tíu daga ferð út í geim árið 2007.

mbl.is