Loftslagsbreytingar auka landeyðingu

Síðan 1961 hafa 5,3 milljónir km² lands verið lagðar undir …
Síðan 1961 hafa 5,3 milljónir km² lands verið lagðar undir landbúnað, álíka og um 2/3 af flatarmáli Ástralíu og hefur landnotkun aldrei aukist hraðar í sögu mannkyns. Þessi mynd er tekin í sögufræga bænum Beelitz í Þýskalandi sem er þekktur fyrir hvíta aspasakra sína. AFP

Um 24% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum á árunum 2003 - 2012 er vegna landnotkunar. Samhliða áhrifum loftslagsbreytinga eykst landnotkun hratt. Síðan 1961 hafa 5,3 milljónir km² lands verið lagðar undir landbúnað, álíka og um 2/3 af flatarmáli Ástralíu og hefur landnotkun aldrei aukist hraðar í sögu mannkyns. Losun frá búpeningi hefur aukist en einnig vegna aukinnar áburðarnotkunar. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu á vegum IPCC, milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar, sem kom út í dag. 

Fjallað er um niðurstöður skýrslunnar á vef Veðurstofunnar og þar segir meðal annað að loftslagsbreytingar auki landeyðingu með meiri ákafa í úrkomu og flóðum, tíðari og umfangsmeiri þurrkum, meira álagi vegna hita, vinds og ölduróts auk hærri sjávarstöðu. Frá því síðla á 19. öld var hlýnun yfir íslausu landi að jafnaði 1,41°C, sem er mun meira en 0,87°C hnattræn hlýnun á sama tíma. Hlýnunin hefur hliðrað loftslagssvæðum, og gert sum búsvæðabelti útsettari fyrir breytileika í veðri og veðurfari.

Hoesung Lee, formaður milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar, kynnir niðurstöður nefndarinnar í …
Hoesung Lee, formaður milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar, kynnir niðurstöður nefndarinnar í nýrri skýrslu um loftslagsbreytingar og landnotkun. AFP

Notkun ólífræns áburðar nífaldast

Aukin matvælaeftirspurn hefur leitt hratt til ákafari landnýtingar. Samfara fólksfjölgun og neyslubreytingum hefur framleiðsla á jurtatrefjum, matvælum og viði verið drifkraftur breytinga á landnotkun.

Notkun ólífræns áburðar hefur nífaldast frá 1961 og notkun áveituvatns tvöfaldast. Breytingar á landnotkun hafa stuðlað að landeyðingu og eyðimerkurmyndun. Útbreiðsla votlendis hefur minnkað um 70% frá 1970 og fjöldi íbúa þurrkasvæða hefur aukist um næstum 300% frá 1961.

Loftslagsbreytingar ógna fæðuöryggi

Vegna hærra hitastigs, úrkomubreytinga og aukinnar tíðni sumra aftakaatburða ógna loftslagsbreytingar fæðuöryggi. Hlýnun hefur aukið framleiðni landbúnaðarvara á hærri breiddargráðum, m.a. á maís, hveiti, sykurrófum og bómull, en dregið úr framleiðslu á lægri breiddargráðum, m.a. á byggi, maís og hveiti.

Meðal áhrifa á beitarlönd eru hnignun haga, hægari vöxtur, minni framleiðni og viðkoma beitardýra, aukin tíðni plága og sjúkdóma og tap á líffræðilegum fjölbreytileika. Á þurrum svæðum, sérstaklega í Afríku og hálendum svæðum í Asíu og Suður-Ameríku telja frumbyggjar og innfæddir að loftslagsbreytingar hafi nú þegar áhrif á fæðuöryggi.

Loftslagsbreytingar hafa aukið landeyðingu og samhliða eykst landnotkun hratt samkvæmt …
Loftslagsbreytingar hafa aukið landeyðingu og samhliða eykst landnotkun hratt samkvæmt nýrri skýrslu á vegum IPCC, milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar. Skýringarmynd/Veðurstofan
mbl.is