Nauðsynlegt að stilla kjötneyslu í hóf

Fleira er matur en feitt kjöt, eins og segir í …
Fleira er matur en feitt kjöt, eins og segir í helgri bók. AFP

Það að skipta kjöti út fyrir grænmetisfæði getur skipt sköpum í baráttunni gegn loftslagsvánni. Þetta segja sérfræðingar hjá Sameinuðu þjóðunum í nýútkominni skýrslu milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC). 

Greint var frá því á mbl.is í gær að skýrsluhöfundar komist að þeirri niðurstöðu að aukin matvælaeftirspurn, vegna fólksfjölgunar og neyslubreytinga, hefði leitt til ákafari landnýtingar, aukinnar notkunar ólífræns áburðar (sem hefur nífaldast frá 1961) og tvöföldunar á notkun áveituvatns. Hafi allt ofangreint leitt til landeyðingar og eyðimerkurmyndunar.

„Við erum ekki að segja fólki að hætta að borða kjöt. Sumstaðar hefur fólk ekkert annað val. Hins vegar er ljóst að hér á Vesturlöndum borðum við allt of mikið af því,“ segir Pete Smith, prófessor í loftslagsvísindum við Aberdeen-háskóla í Skotlandi í samtali við BBC.

Um fjórðungur af útblæstri gróðurhúsalofttegunda kemur til vegna matvælaframleiðslu og stendur kjötframleiðsla undir 58% af útblæstri matvælaframleiðslunnar, þ.e. um 15% af heildarlosun. „Samdráttur í kjötneyslu er nauðsynlegur, ef við ætlum að ná loftslagsmarkmiðum,“ segir Peter Stevenseon frá samtökunum Compassion in World Farming.

Á sumum mörkuðum, svo sem í Kína, er neysla nautakjöts, sem stendur undir stórum hluta kjötútblástursins, að aukast þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að hampa hefðbundnari réttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina