Færast nær bóluefni gegn klamydíu

Danskir vísindamenn segjast vera að færast nærri því að geta …
Danskir vísindamenn segjast vera að færast nærri því að geta hafið framleiðslu á bóluefni gegn kynsjúkdómnum klamydíu. mbl.is/Hari

Danskir vísindamenn hafa tekið stórt skref í þróun bóluefnis gegn algengasta kynsjúkdómi Danmerkur (og Íslands), samkvæmt því sem fram kemur á forsíðu danska dagblaðsins Politiken í dag.

Þar segir að danska bóluefnið hafi verið prófað á 35 konum í tilraun sem framkvæmd var í Bretlandi og að það hafi virkað sem skyldi í öllum tilfellum, en tilraunin var samvinnuverkefni vísindamanna hjá dönsku stofnuninni SSI (Statens Serum Institut) og Imperial College í Lundúnum.

Politiken greindi fyrst frá málinu á forsíðu sinni í morgun, …
Politiken greindi fyrst frá málinu á forsíðu sinni í morgun, en grein eftir danska vísindamenn er væntanleg í tímaritinu Lancet. Skjáskot af forsíðu Politiken

Á næstunni birtist fræðigrein um vel heppnaða tilraunina í læknatímaritinu Lancet, en danski vísindamaðurinn Frank Follmann er aðalhöfundur greinarinnar.

„Þetta er risastór áfangi fyrir okkur. Við höfum unnið að þessu í 15 ár og aðrir þeir sem hafa verið að fást við klamydíu hafa ekki enn framleitt bóluefni fyrir klíníska tilraun,“ sagði Follmann við Politiken, en hann býst við að ef allt gangi samkvæmt áætlun geti bóluefnið verið komið á markað eftir fimm ár.

Danir gleðjast yfir fregnunum og í framhaldsfrétt um málið á vef Politiken í dag er rætt við ungmenni sem segjast gjarnan geta hugsað sér að bólusetja sig gegn sjúkdómnum, sem yfir 33.000 Danir greindust með á síðasta ári.

Hið sama hlýtur að eiga við á Íslandi, enda er Ísland það ríki Evrópu hvar hlutfallslega flestir greinast með klamydíu. Hið sama á reyndar við um fleiri kynsjúkdóma, eins og fjallað var um hér á síðum mbl.is í síðasta mánuði.

Evrópskar samanburðartölur sýna að klamydíusmit voru um það bil 650 á hverja 100 þúsund íbúa hér á landi árið 2017, eða 2.198 talsins.

Frétt DR um málið í dag 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert