Instagram beitir sér gegn falsfærslum

Kerfið á Instagram mun virka þannig að færslum með fölskum …
Kerfið á Instagram mun virka þannig að færslum með fölskum upplýsingum verður ekki eytt, heldur munu þær einfaldlega ekki birtast undir kassmerkjum (e. hashtags) og í Explore-dálki forritsins. AFP

Instagram byrjaði í dag að bjóða hluta notenda upp á að tilkynna „falskar upplýsingar“ á vafri sínum um samfélagsmiðilinn. Stephanie Otway talskona Facebook, eiganda Instagram, segir að allir notendur mynda- og myndbandamiðilsins muni geta tilkynnt „falsfærslur“ fyrir lok mánaðar.

Nú þegar geta allir notendur tilkynnt amapósta (e. spam) og aðrar óviðeigandi færslur sem þeir sjá á miðlinum, en brátt geta allir tiltekið sérstaklega að þeir séu að tilkynna færslur vegna falskra upplýsina sem í þeim felist.

„Við erum að fjárfesta mikið í leiðum til þess að hamla flæði rangra upplýsinga á okkar miðlum og við ættum að kynna fleiri viðbætur á næstu mánuðum,“ segir Otway.

Kerfið á Instagram mun virka þannig að færslum með fölskum upplýsingum verður ekki eytt, heldur munu þær einfaldlega ekki birtast undir kassmerkjum (e. hashtags) og í Explore-dálki forritsins.

Notendur þurfa þannig að kjósa sjálfviljugir að fylgja þeim deila fölskum upplýsingum á Instagram, til þess að fá þær upp á skjáinn, ef allt gengur að óskum.

mbl.is