Geimbúningur prófaður á Íslandi

Íslenski fáninn á Vatnajökli. Til hans gera Íslendingar jú tilkall.
Íslenski fáninn á Vatnajökli. Til hans gera Íslendingar jú tilkall. Ljósmynd/Daniel Leeb

Fyrsta leiðangri félagsins Iceland Space Agency lauk á dögunum. Félagið er nýstofnað og tekur að sér geimferðaundirbúning enda þykir Ísland vel til þess fallið að undirbúa menn fyrir hrjóstrugt umhverfi himintunglanna.

Haldið var í sex daga ferð til Grímsvatna í Vatnajökli þar sem föruneytið dvaldi í skála. Með í för voru Michael Lye iðnhönnuður, sem meðal annars hannaði MS1 geimbúninginn sem til stóð að prófa. Hann er ætlaður til Mars-ferða.

„Ein mikilvægasta ástæðan fyrir rannsóknum á hliðstæðum svæðum himintunglanna hér á jörðinni er til þess að þátttakendur trúi á hvað þeir eru að gera og að niðurstöður gefi vísbendingar um hvað gæti raunverulega gerst á Mars,” er haft eftir Lye í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Segir enn fremur að framtíðarrannsóknir á þessu landsvæði muni ákvarða hvort geimfarar geti greint ummerki um líf á Mars, notað jarðhitaorku og rannsakað hvernig frosið vatn á jöklasvæðum tunglsins og Mars má nýta sem eldsneyti fyrir geimflaugar eða sem súrefni.

Ef ekki væri fyrir ísinn gæti þessi mynd allt eins …
Ef ekki væri fyrir ísinn gæti þessi mynd allt eins verið af tunglinu. Ljósmynd/Daniel Leeb

Auk Lye var Benjamin Pothier, starfsmaður evrópsku geimferðastofnunarinnar, með í för ásamt vísindamönnum frá Háskóla Íslands. Ferðin var fjármögnuð af United Airlines, ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Trucks og Iceland Pro Guides, en hún er sú fyrsta sem hið nýstofnaða fyrirtæki ræðst í.

Löng hefð er fyrir því að geimfarar stígi sín fyrstu skref á Íslandi. Þannig voru á fjórða tug geimfara sendir hingað til lands árið 1965 og aft­ur árið 1967 til þess að æfa sig í svipuðu lands­lagi og þeir myndu síðar kynn­ast á tungl­inu, og var Neil Armstrong með í för. Hann átti síðar eftir að stíga fyrstur fæti á tunglið 1969, eins og þekkt er.

mbl.is