Saka stjórnvöld um áróður

AFP

Bandarísku samfélagsmiðlarnir Twitter og Facebook saka stjórnvöld í Kína um að standa á bak við herferðir á samfélagsmiðlum þar sem gert er lítið úr hreyfingu mótmælenda í Hong Kong og reynt að kynda undir ófriðarbáli í borginni.

Miðlarnir tilkynntu í dag að þeir hefðu lokað fyrir tæplega eitt þúsund reikninga tengda þessari herferð en áður hafði Twitter lokað yfir 200 þúsund reikningum en það var gert áður en þeir hófu að breiða út óhróður.

Hundruð þúsunda þyrptust út á götur Hong Kong um helgina í þeim tilgangi að sýna leiðtogum borgarinnar að hreyfing þeirra njóti enn víðtæks stuðnings þrátt fyrir stigvaxandi ofbeldi gegn mótmælendum og vægðarlausar viðvaranir frá Peking, höfuðborg Kína.

Mótmæli hafa staðið yfir reglulega síðan snemma í júní og hafa mótmælendur kvartað yfir mikilli hörku í sinn garð, enda hafi þeir að mestu mótmælt friðsamlega. Stjórnvöld í Kína hafa krafist þess að stjórnvöld í Hong Kong, sem er sjálfstjórnarsvæði innan Kína, bregðist harkalega við mótmælunum. Hong Kong hefur farið eftir þeim kröfum og hefur lögreglan beitt táragasi, kylfum og gúmmíkúlum gegn mótmælendum.

mbl.is