Plastagnir ógni ekki heilsu fólks

Niðurstaða vísindamanna WHO er að plastagnir sem berast með drykkjarvatni …
Niðurstaða vísindamanna WHO er að plastagnir sem berast með drykkjarvatni í líkama fólks hafi ekki áhrif á líkamsstarfsemina. Í skýrslu rannsóknarinnar er þó bent á að niðurstöðurnar eru byggðar á takmörkuðum upplýsingum og að þörf sé á frekari rannsóknum. AFP

Plastagnir sem finnast í drykkjarvatni eru ekki skaðlegar heilsu fólks. Þetta er niðurstaða rannsóknar vísindamanna á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). 

Í skýrslu rannsóknarinnar er þó bent á að niðurstöðurnar eru byggðar á takmörkuðum upplýsingum og að þörf sé á frekari rannsóknum. „Við þurfum nauðsynlega að vita meira,“ segir meðal annars í skýrslunni. Lykilskilaboð rannsóknarinnar eru því þau að vekja athygli á hversu lítið er vitað um áhrif plastagna á heilsu fólks. 

„Við þurfum að vita hversu mikið magn við innbyrðum, hversu stórar plastagnirnar eru og í hvernig formi, sem og efnasamsetningu þeirra,“ segir Jennifer de France, einn af höfundum skýrslunnar, í samtali við BBC

Samkvæmt fyrstu rannsókninni sem gerð hefur verið á út­breiðslu plastagna í líköm­um fólks, sem kom út í júní, innbyrðir meðalmaður að minnsta kosti 50 þúsund agn­ir af örplasti á hverju ári og tvö­falt fleiri sé inn­önd­un plastagna tal­in með. 

Niðurstaða vísindamanna WHO er að plastagnir sem berast með drykkjarvatni í líkama fólks hafi ekki áhrif á líkamsstarfsemina. Stærri agnir, 5 mm og stærri, renna einfaldlega í gegnum líkamann án þess að hafa áhrif en agnir minni en 5 mm sem geta orðið eftir í líkamanum finnast í það litlum mæli að áhrifin verða lítil sem engin. 

Í skýrslunni er hins vegar hvatt til þess að draga úr plastnotkun. Árlega eru fram­leidd­ar yfir 300 millj­ón­ir tonna af plasti og í haf­inu eru nú að minnsta kosti fimm milljarðar plast­hluta, að mati vís­inda­manna. 

mbl.is