Hafið gefur og tekur

Höfin sem hafa nært þróun mannsins eru líkleg til þess að setja af stað hörmungar sem eiga eftir að hafa áhrif á allt mannkynið nema allt kapp verði lagt á að draga úr mengun hafsvæða heimsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrsludrögum Sameinuðu þjóðanna sem fréttamenn AFP hafa undir höndum.

Breytingar til hins verra eru þegar farnar að sjást og staðan á bara eftir að versna segir í drögunum. Samdráttur í fiskistofnum og margföldun tjóna af völdum fárviðra. Hundruð milljóna jarðarbúa þurfa væntanlega að flýja að heiman vegna hækkunar sjávarmáls ef ekkert verður gert til þess að sporna við þessari þróun, segir enn fremur í drögum skýrslunnar sem er um 900 bls. að lengd.

Bráðnun jökla mun í fyrstu auka hættu á flóðum en síðar leiðir þetta til skorts á vatni hjá milljörðum jarðarbúa. Að minnsta kosti 30% af sífreranum í norðri getur verið bráðnaður fyrir næstu aldamót ef ekkert verður að gert. Það þýðir að milljarðar tonna af kolefnum losna út í andrúmsloftið og munu auka áhrif hlýnunar jarðar enn frekar. 

Hér er hægt að lesa nánar um skýrsludrögin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert