Er Facebook hætt að líka við „lækin“?

Hættum við brátt að sjá þumalinn á Facebook.
Hættum við brátt að sjá þumalinn á Facebook. AFP

Svo virðist sem samskiptaforritið Facebook taki umræðu um geðheilsu og notkun samfélagsmiðla til sín ef marka má viðbót sem er í smíðum hjá fyrirtækinu. Viðbótin gerir það kleift að sýna notandanum ekki hversu margir hafa brugðist við færslu sem sett er inn hverju sinni.  

Verkfræðingur fann út að frumgerð með þessari stillingu var að finna í facebook-snjallforriti fyrir android-síma en hefur ekki enn verið virkjuð. Talsmenn Facebook hafa ekki viljað tjá sig um þetta, að því er segir í frétt BBC.   

Samskiptaforritið Instagram, sem einnig er í eigu Facebook, innleiðir svipaðar prófanir í sjö löndum, þar á meðal Kanada og Brasilíu. Þar gefst notandanum einungis kostur á að sjá hversu mörgum líkar við færslunar sem settar eru inn.  

Jane Manchun Won sem komst að þessu tekur fram í færslu á samfélagsmiðlum að hún starfi ekki fyrir fyrirtækið. Hún bendir á að það taki tíma að þróa og koma með nýjungar sem ýmist verða að veruleika eða ekki. „Ég er hins vegar sannfærð um að það kemur sér vel fyrir andlega heilsu hjá stórum hópi fólks að vita ekki um fjölda þeirra sem læka færslurnar.“

Sitt sýnist hverjum um þessa tilraun Facebook. Ellen Pau sagði á samskiptamiðlinum Twitter að þetta væri of seint í rassinn gripið og vísaði til þess að frá árinu 2014 hefði vitneskja verið um að samfélagsmiðlar hefðu áhrif á andlega heilsu fólks. 

Instagram er ekki tilbúið að greina frá niðurstöðu tilraunarinnar enn sem komið er. „Við bindum vonir við að þessi tilraun dragi úr pressu fólks um hversu mörgum líka færslur þess svo það geti einbeitt sér að því að deila því sem það vill með fólki sem því þykir vænt um.“ Þetta var haft eftir Miu Garlick, reglugerðastjóra Facebook í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, í yfirlýsingu þegar fyrrgreind tilraun Instagram var kynnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert