YouTube safnaði og deildi persónugögnum barna í hagnaðarskyni

Persónuupplýsingum barna var safnað og deilt af YouTube. Þær voru …
Persónuupplýsingum barna var safnað og deilt af YouTube. Þær voru notaðar til að selja leikfangaframleiðendum dýrar auglýsingar. AFP

Tæknirisinn Google hefur samþykkt að greiða 170 milljónir bandaríkjadala eða sem nemur um 21,5 milljörðum íslenskra króna til að semja um málalok málshöfðunar sem var höfðuð vegna þess að tæknirisinn safnaði og deildi gögnum frá börnum sem notuðu myndbandsþjónustu YouTube, dótturfélags Google.

Margir hafa gagnrýnt samkomulagið og segja að fjárhæðin sem Google þarf að greiða sé allt of lág.

Sáttin var gerð við FTC, sjálfstæða alríkisstofnun um viðskipti (e. Federal Trade Commission), og ríkissaksóknara New York-ríkis. Er þetta umfangsmesta mál sem varðar brot á lögum um persónuvernd barna á netinu, COPPA, (Children's Online Privacy Protection Act) frá 1998.

Notuðu gögnin til að selja auglýsingar

YouTube er sagt hafa brotið gegn lögum sem leggja skyldu á fyrirtæki sem miðla efni til barna á netinu með því að vara ekki við upplýsingasöfnun fyrirtækisins og með því að hafa vanrækt að fá leyfi hjá foreldrum barna undir 13 ára til að safna persónuupplýsingum um þau.

Fyrirtækið YouTube markaðssetti vefsvæðið sem áfangastað fyrir börn og græddi háar fjárhæðir á því að selja leikfangaframleiðendum auglýsingar á vefsvæðinu, segja talsmenn FTC.

„YouTube gerði mikið úr vinsældum sínum meðal barna í samtölum við tilvonandi viðskiptavini sína. En þegar kom að því að fylgja COPPA neitaði fyrirtækið að hlutum vefsvæðis þess væri beint sérstaklega að börnum. Fyrirtækið á sér engar málsbætur vegna brota á lögunum,“ sagði yfirmaður FTC.

Yfirmaður FTC, Andrew Smith, kynnti sáttina á blaðamannafundi fyrr í …
Yfirmaður FTC, Andrew Smith, kynnti sáttina á blaðamannafundi fyrr í dag. AFP

Klóra í bakkann með því að stofna sjóð

YouTube hefur þegar gefið það út að það muni breyta verklagi sínu í framhaldinu.

„Við munum meðhöndla gögn frá notendum, á vefsvæði fyrir börn, eins og um barn væri að ræða í öllum tilfellum, óháð aldri notandans,“ sagði Susan Wojcicki, forstjóri YouTube, við fjölmiðla.

„Það þýðir að við munum takmarka gagnasöfnun frá notendum sem horfa á barnaefni. Þá munum við einnig alfarið hætta að nota persónumiðaðar auglýsingar í barnaefni,“ bætti hún við.

Þá sagði forstjórinn að Google myndi stofna 100 milljóna dala sjóð, sem nemur tæplega 13 milljörðum íslenskra króna, með það að markmiði að framleiða ábyrgðarfullt og frumlegt barnaefni.

Sáttin verður þó að vera samþykkt af alríkisdómstól áður en hún gengur í gegn. Samkvæmt henni mun sáttarfjárhæðin skiptast milli FTC og New York-ríkis.

mbl.is