400 milljónum símanúmera lekið

Sennilega eru flestir orðnir ónæmir fyrir fréttum af gagnaleka hjá …
Sennilega eru flestir orðnir ónæmir fyrir fréttum af gagnaleka hjá Facebook. AFP

Símanúmer rúmlega 400 milljóna facebooknotenda, sem skráð voru í gagnagrunn fyrirtækisins, enduðu fyrir allra augum á netinu í vikunni. Frá þessu greinir vefsíðan TechCrunch. 

Virðist sem einhver hafi komist yfir gagnagrunninn sem innihélt, auk símanúmers, upplýsingar um kyn og búsetu. Var hann aðgengilegur á netinu þar til á miðvikudag er fjölmiðlar höfðu greint frá honum.

Facebook hefur viðurkennt gagnalekann en sagt að umfang hans sé mun minna en greint hefur verið frá og fjöldi notenda sem urðu fyrir barðinu á honum „aðeins“ um 200 milljónir.

Facebooknotendur eru reglulega hvattir til að gefa fyrirtækinu upp símanúmerið sitt. Eitt sinn var hægt að fletta notendum upp eftir símanúmeri, en tekið var fyrir það eftir að upp komst að fyrirtækið Cambridge Analytica hafði nýtt sér það við gagnasöfnun fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert