Kraftmesti hrökkáll heims fundinn í Amazon

Uppgötvunin er til marks um gríðarlegan fjölbreytileika lífs í Amazon-regnskóginum.
Uppgötvunin er til marks um gríðarlegan fjölbreytileika lífs í Amazon-regnskóginum. AFP

Vísindamenn hafa uppgötvað tilveru tveggja nýrra tegunda hrökkála (e. electric eel) í vatnasviði Amazon-skógarins. Annar þeirra er sá kraftmesti í heimi, þ.e. gefur frá sér mesta rafstuð sem uppgötvað hefur verið hjá álum.

Hrökkállinn, sem hefur fengið fræðilega heitið electrophorus voltai, getur gefið frá sér rafstuð upp á 860 volt. Sá sem áður var talinn kraftmestur gat gefið frá sér straum upp á 650 volt.

Uppgötvunin er til marks um gríðarlegan fjölbreytileika lífs í Amazon-regnskóginum, segja vísindamenn, og ýtir enn undir mikilvægi þess að skógurinn sé verndaður.

„Þrátt fyrir áhrif mannsins á Amazon-regnskóginn síðastliðin 50 ár getum við enn uppgötvað risafiska eins og þessar tvær nýju tegundir hrökkála,“ segir C. David de Santana, vísindamaðurinn sem fer fyrir rannsókninni.

Niðurstöður hennar bendi til þess enn eigi eftir að uppgötva fjöldann allan af dýra- og plöntutegundum sem jafnvel geti stuðlað að læknisfræðilegum og tæknilegum framförum, en hrökkállinn, sem á reyndar meira skylt við fiska en ála, var einmitt innblástur fyrir hönnun fyrsta batterísins.

Umfjöllun Guardian

mbl.is