Nýjar upplýsingar um „versta dag jarðar“

Rannsóknin hefur staðið yfir í nokkur ár en fyrsta borunin …
Rannsóknin hefur staðið yfir í nokkur ár en fyrsta borunin eftir bergsýnum var framkvæmd fyrir þremur árum, þegar borað var eftir sýnum á um 450 metra dýpi. AFP/Ronaldo Schemidt

Vísindamenn hafa uppgötvað ný sönnunargögn sem varpa ljósi á það sem kallað hefur verið „versti dagur jarðar“, þegar tíu kílómetra breið halastjarna (eða smástirni) rakst á jörðina á Yucatán-skaga í Mexíkó fyrir 65 milljónum ára. 

Þriðji stærsti árekstrargígur í heimi myndaðist þegar smástirnið rakst á jörðina, Chicxulub-gígurinn, og olli miklum hamförum, sem eru meðal annars taldar hafa stuðlað að útdauða risaeðlanna og 75% af öllu lífi. Halastjarnan markaði upphaf endaloka miðlífsaldar jarðsögunnar, þegar risaeðlurnar réðu ríkjum. 

Chicxulub-gígurinn myndaðist á Yucatán-skaga í Mexíkó fyrir 65 milljónum ára.
Chicxulub-gígurinn myndaðist á Yucatán-skaga í Mexíkó fyrir 65 milljónum ára. Ljósmynd/Wikipedia/NASA

Ný bergsýni úr Chicxulub-gígnum á hafsbotni Mexíkóflóa hafa varpað skýrara ljósi á hvað átti sér nákvæmlega stað þegar hamfarirnar sem fylgdu smástirninu gengu yfir svæðið. 

Í bergsýnunum má finna fjölmörg lög og fyrir tilstilli nútímatækni geta vísindamenn rakið daginn örlagaríka mínútu fyrir mínútu, sem áður var talið ómögulegt. Í sýnunum má meðal annars sjá ummerki um bráðnun íss, öfluga jarðskjálfta, flóðbylgjur, aurskriður og stórbruna. Gígurinn sem myndaðist er um 20 kílómetra djúpur og virðist vera um 180 km í þvermál en gæti verið allt að 280 km. 

Bergsýni úr hafsbotni við Mexíkóflóa

Rannsóknarverkefnið var afar umfangsmikið, kostaði 10 milljónir dollara, og kynntu vísindamennirnir niðurstöður sínar í vikunni í ritrýndri fræðigrein í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America. Rannsóknin hefur staðið yfir í nokkur ár en fyrsta borunin eftir bergsýnum fór fram fyrir þremur árum, þegar borað var eftir sýnum á um 450 metra dýpi. 

„Þetta segir okkur hvað gerðist inni í gígnum á þessum dómsdegi sem varð risaeðlunum að bana,“ segir Jay Melosh, jarðeðlisfræðingur við Purdue-háskóla. Melosh tilheyrir hópi vísindamanna sem boraði eftir bergsýnunum í Mexíkóflóa en hann sérhæfir sig í rannsóknum á gígum. 

Sean P.S. Gulick sjávarjarðeðlisfræðingur fer fyrir rannsókninni. „Alla jafna gera bergsýni okkur kleift að lesa þúsund ár úr nokkrum sentimetrum. Í þessum sýnum fáum við 130 metra sem veita okkur innsýn inn í heilan dag,“ segir hann.  

Vísindamennirnir athöfnuðu sig á borskipinu Lifeboat Myrtle í Mexíkóflóa þar …
Vísindamennirnir athöfnuðu sig á borskipinu Lifeboat Myrtle í Mexíkóflóa þar sem þeir boruðu eftir bergsýnum sem varpa ljósi á halastjörnuna sem stuðlaði að útdauða risaeðlanna og 75% af öllu lífi fyrir 65 milljónum ára. AFP/Ronaldo Schemidt

Gígurinn myndaðist sem fyrr segir þegar tíu kílómetra breið halastjarna rakst á jörðina. Bergsýnin sýna að miðja gígsins verður til á 40 til 50 kílómetra dýpi á fyrstu sekúndunum eftir að halastjarnan nær til jarðar og verður að eins konar suðupotti fyrir bráðnun ýmissa bergtegunda auk mikillar gufumyndunar. Hitinn varð svo mikill að bergtegundir skutust hátt upp í loftið, þær hæstu jafn hátt og á sjálfan topp Everest. 

„Aðeins nokkrum mínútum seinna féll gígurinn saman og hraun flæddi svo úr varð gjörbreytt landslag, auk stærðarinnar flóðbylgna. Tuttugu mínútum síðar flæddi sjór yfir hraunið.“ Þetta er einungis brotabrot af lýsingum vísindamannanna, sem lesa má í heild sinni í grein Wall Street Journal þar sem einnig má finna nákvæmar skýringarmyndir af gígnum. 

Gerist einungis einu sinni á milljarðs ára fresti

Chicxulub-gígurinn er þriðji stærsti árekstursgígur í heimi líkt og fyrr segir, á eftir Vredefort-gígnum í Suður-Afríku, sem er talinn um tveggja milljarða ára gamall og um 300 km í þvermál, og Sudbury-gígnum í Kanada sem er um 1,8 milljarða ára gamall og um 200 km í þvermál. 

Samkvæmt upplýsingum frá NASA er ekki vitað um halastjörnur eða smástirni sem stefna á jörðina á næstunni. Halastjarna líkt og sú sem varð risaeðlunum að bana rekst einungis á jörðina einu sinni á milljarðs ára fresti og því ættu jarðarbúar að geta andað rólega.

Wall Street Journal

New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert