Missti sjón vegna næringarskorts

mbl.is/Brynjar Gauti

Sautján ára breskur unglingur missti nánast alla sjónina eftir að hafa lifað nær eingöngu á frönskum kartöflum, kartöfluflögum og hvítu brauði.

Rannsóknir sýndu að unglingurinn þjáðist af alvarlegum bætiefnaskorti og vannæringu. Drengurinn hafði leitað læknis þegar hann var fjórtán ára vegna vanlíðanar og þreytu og verið sagt að taka B12-bætiefni en hann hélt sig ekki við það.

Þremur árum síðar var farið með hann til augnlæknis vegna þess að hann hafði smám saman misst sjónina. Læknir drengsins, Denize Atan, segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að ávexti og grænmeti hafi alveg vantað í mataræði hans.

Við rannsókn á drengnum kom í ljós skortur á B12-bætiefni sem og ýmsum öðrum mikilvægum bætiefnum auk steinefna eins og kopars.

mbl.is