Google fellst á að greiða frönskum skattyfirvöldum milljarð

Frönsk skattayfirvöld árum saman fullyrt að Google væri að greiða ...
Frönsk skattayfirvöld árum saman fullyrt að Google væri að greiða of lítinn skatt AFP

Google þarf að greiða rúman milljarð dollara í sektir og vangoldna skatta til að ljúka deilu sinni við frönsk skattyfirvöld. Wall Street Journal greinir frá þessu og segir Google nú hafa gefið eftir, eftir áralanga rannsókn á því hvort fyrirtækið hafi gefið upp allan hagnað af starfsemi sinni í landinu. 

Saksóknari fjármálarannsókna hjá franska ríkinu greindi í gær frá því að dómstólar hefðu fallist á 550 milljón evra sekt sem Alphabet Inc., dótturfyrirtæki Google, hefði fallist á að greiða vegna rannsóknar á skattamálum fyrirtækisins. Saksóknari hefur verið með til rannsóknar meint skattaundanskot Google frá 2015, eða frá því að kvörtun barst frá frönskum skattyfirvöldum vegna framtals fyrir fjögurra ára tímabil þar á undan. 

Wall Street Journal segir Google hafa staðfest samkomulagið og að fyrirtækið hafi einnig fallist á að greiða 465 milljónir evra í vangoldna skatta. Hafa frönsk skattyfirvöld árum saman fullyrt að Google borgaði of lítið.

Wall Street Journal segir ákvörðunina hafa komið nokkuð á óvart, ekki síst í ljósi þess að franskur dómstóll hafnaði fyrir tveimur árum kröfu franskra skattyfirvalda um að Google greiddi 1,1 milljarð í skatt fyrir árin 2005-2010 á grundvelli þess að fyrirtækið hefði gefið upp of lítinn hagnað og of lágan skattstofn.

mbl.is