Fín norðurljósaspá um helgina

Búast má við svokölluðum segulstormi á föstudagskvöld.
Búast má við svokölluðum segulstormi á föstudagskvöld. mbl.is/​Hari

Norðurljósatímabilið hefur farið hægt af stað þetta haustið en útlit er gott fyrir helgina, bæði fyrir veðrið á Íslandi og veðrið í geimnum, að því er segir í tilkynningu frá Sævari Helga Bragasyni hjá Aurora Forecast.

Á vef Aurora Forecast má sjá allar mikilvægustu upplýsingar um geimveður og skýjahuluspá og samkvæmt vefsíðunni má búast við svokölluðum segulstormi á föstudagskvöld.

„Gangi sú spá eftir verða litrík og kvik norðurljós sjáanleg þaðan sem sést í heiðan himin. Ástæðan er sú að nú snýr kórónugeil á sólinni í átt að jörðu sem sendir okkur hraðfleygan sólvind. Þegar sólvindurinn rekst á lofthjúp jarðarinnar myndast norðurljós.“

Þá segir í tilkynningunni frá nýjung á vefnum, gervihnattamynd af Íslandi sem gagnast leiðsögu- og ferðafólki og öðru áhugafólki um norðurljós. „Gervitunglamyndin gerir okkur kleift að bera saman við skýjahuluspána og finna heppilega norðurljósaskoðunarstaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert