315 milljarða tonna íshella brotnar frá suðurskautinu

Myndir úr Sentinel 1 gervihnetti Evrópusambandsins sýna ísjakann brotna frá.
Myndir úr Sentinel 1 gervihnetti Evrópusambandsins sýna ísjakann brotna frá. Ljósmynd/Copernicus Data/Sentinel

315 milljarða tonna þung íshella hefur brotnað frá Amery-flotjöklinum á suðurskautinu og er það stærsta íshella sem brotnað hefur úr jöklinum í rúm 50 ár. BBC greinir frá.

Íshellan sem ber nafnið D28 er um 1.636 km2 að stærð og þar með svipuð að stærð og skoska eyjan Isle of Skye. Vegna stærðar íshellunnar verður að fylgjast vel með henni þar sem skipaumferð getur stafað ógn af honum.

Það verður að leita allt aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar til að finna stæri íshellu sem brotnað hefur úr Amery, sem er þriðji stærsti flotjökullinn á suðurskautinu og er lykilfrárennslisrás fyrir austurhluta heimsálfunnar.

Flotjökullinn er í raun fljótandi framlenging á fjölda jökla sem skríða af Suðurskautslandinu og út yfir sjóinn.

Litla tönn sést hér á þessari gervihnattamynd frá því skömmu …
Litla tönn sést hér á þessari gervihnattamynd frá því skömmu fyrir 2000. Lengst til vinstri má sjá D28 vera að myndast. Ljósmynd/NASA

BBC segir vísindamönnum hafa verið kunnugt um að íshella myndi brotna frá, það sem sé athyglisvert sé hins vegar að þeir voru að fylgjast með svæðinu í næsta nágrenni við þessa íshellu. Það svæði hefur gengið undir heitinu „Lausa tönn“ af því að það minnir mest á barnatönn þegar það er skoðað á gervihnattamyndum. Báðar tilheyra íshellurnar hins vegar sama sprungukerfi.

Þrátt fyrir að Lausa tönnin sé óstöðug, er hún hins vegar enn föst við á meðan að D28 brotnaði frá.

„Þetta er eins og jaxlinn í samanburði við barnatönn,“ segir prófessor Helen Fricker við  Scripps hafvísindastofnunina. Hún spáði því árið 2002 að Lausa tönn myndi brotna frá einhvern tíman á árabilinu 2010-2015.

„Ég er spennt að sjá þetta jökulkast eftir öll þessi ár. Við vissum að þetta myndi gerast einhvern tímann, en bara til að halda okkur á tánum þá er þetta ekki nákvæmlega á þeim stað sem við héldum að það yrði,“ segir hún.

Larsen C-íshellan sem brotnaði frá Suðurskautinu árið 2017 er í …
Larsen C-íshellan sem brotnaði frá Suðurskautinu árið 2017 er í dag þrisvar sinnum stærri en D28. AFP

Hún ítrekar að jökulkastið hafi ekkert með loftslagsvána að gera og að gervihnattamyndir hafi allt frá því á tíunda áratug síðustu aldar sýnt að ágætis jafnvægi ríki milli Amery-flotjökulsins og næsta umhverfis hans, þrátt fyrir að aukna bráðnun íss yfir sumartímann.

„Þó að það sé margt sem þarf að hafa áhyggjur af á suðurskautinu þá þarf ekki enn að hafa áhyggjur af þessum ákveðna flotjökli,“ sagði Fricker.

Vísindamenn munu engu að síður fylgjast vel með Amery-flotjöklinum í nánustu framtíð til að sjá hvort einhverjar breytingar verði. Ekki sé nefnilega hægt að útiloka að það hafi áhrif á jökulinn að missa svo stórt stykki framan af íshellunni. Slíkt getur þannig til að mynda haft áhrif á sprungumyndun og jafnvel jafnvægi Lausu tannar.

D28 íshellan er talinn vera um 210 metra þykk og inniheldur, líkt og áður sagði, um 315 milljarða tonna af ís. Hún er þó fjarri því að vera stærsta íshellan sem brotnað hefur frá suðurskautinu því A68-íshellan sem brotnaði af Larsen C-flotjöklinum árið 2017 nær enn í dag yfir svæði sem er þrisvar sinnum stærra.

Talið er að straumar og vindur muni bera D28 í vesturátt og að það muni taka íshelluna nokkur ár að brotna niður og hverfa.

mbl.is