Umfangsmikil skógrækt gæti skaðað vistkerfið

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í líffræði við líf- og umhverfisvísindadeild …
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í líffræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Þorsteinn

Ef farið verður út í umfangsmikla skógrækt líkt og lagt er upp með í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftlagsmálum, sem samþykkt var í fyrra, samkvæmt áætlun Skógræktarinnar gæti það haft mikil áhrif á vistkerfi landsins, dregið úr sjónrænni og vistfræðilegri fjölbreytni landsins og haft gríðarleg áhrif á landslagið. Þetta segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í líffræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hún gagnrýnir jafnframt Skógræktina fyrir að ýta undir dreifingu trjáa sem flokkuð eru sem ágengar tegundir víða erlendis og telur réttara að unnið verði með endurheimt votlendis.

Þetta var meðal þess sem kom fram á líffræðiráðstefnunni á föstudaginn á málstofu um hvað aðgerðaáætlunin þýði fyrir íslensk þurrlendisvistkerfi. Var nokkuð sammerkt meðal þeirra líffræðinga sem héldu framsögu að þótt þeir væru almennt ánægðir með aðgerðaáætlunina var lítil ánægja með hugmyndir Skógræktarinnar.

Tekur til stórs hluta landsins

Þóra ræddi við blaðamann mbl.is eftir fundinn og sagði að þegar áform um nýskógarrækt væru skoðuð kæmi í ljós að þau væru gríðarlega stórtæk og myndu hafa umfangsmikil áhrif. Í dag telja skógar um 2 þúsund ferkílómetra á Íslandi, en samkvæmt útgefnu riti Skógræktarinnar um stefnu á 21. öldinni er stefnt að því að skógar verði 12 þúsund ferkílómetrar. Var meðal annars vísað til orða skógræktarstjóra eftir að aðgerðaáætlunin var kynnt þar sem hann sagði að hægt væri að tvö- til þrefalda nýskógarækt með þeim auknu fjármunum sem hefur verið lofað í verkefnið.

Í erindi Ólafs K. Nielsen, vistfræðings hjá Náttúruvísindastofu Íslands, á sömu málstofu kom meðal annars fram að markmið Skógræktarinnar myndi þýða að koma ætti upp skógi í 42% af öllum úthaga á landinu.

mbl.is

Umdeild tré í forgangi í skógrækt

Þóra sagði í fyrirlestri sínum að Skógræktin hefði undanfarna áratugi að mestu plantað innfluttum trjátegundum sem væru margar hverjar flokkaðar sem ágengar erlendis. Í tengslum við ágengar plöntutegundir er líklega lúpínan þekktust, en Þóra beindi spjótum sínum aðallega að innfluttum barrtrjám eins og lerki, stafafuru og sitkagreni auk alaskaaspar sem er lauftré.

Sagði hún að Skógræktin hefði staðið fyrir víðtækum stórkvarða breytingum með víðáttumiklum barrtrjáaplantekrum. Þetta væri að finna víða um land og sagði hún að með þessu breyttist landslagið úr því að vera „með fíngert mynstur, marga ólíkar tegundir bletta sem eru ólíkir í laginu og misstórir og ólíkir á litinn þar sem mishávaxnar plöntur eru ríkjandi yfir í að að það verður bara ein ríkjandi tegund“.

Stafafuran hefur víða verið skilgreind sem ágeng tegund, en ekki …
Stafafuran hefur víða verið skilgreind sem ágeng tegund, en ekki hér á landi. Ljósmynd/ Axel Kristinsson

Í fyrirlestrinum tók hún tvö dæmi um svæði sem þessi út frá nýlegu vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar Íslands. Benti hún á að tvær gerðir gróðurs skæru sig oft út. Í fyrsta lagi væri það lúpínan og tók hún dæmi af fjögurra ferkílómetra svæði þar sem lúpínan var ríkjandi á helmingi kortsins. Hins vegar voru 16 mismunandi vistgerðir ríkjandi á hinum hluta kortsins með þessu fíngerða ólíka mynstri, „sem myndar eins konar mósaík“ að sögn Þóru. Þá séu á öðrum stöðum stórir blettir þaktir barrskógi, en lítið annað nái að vera þar ríkjandi. „Þarna verða til einsleit svæði,“ segir hún.

„Þetta hefur gríðarleg áhrif á landslagið“

„Þetta hefur gríðarleg áhrif á landslagið,“ segir Þóra og bætir við að bæði þurfi að rannsaka möguleg áhrif betur sem og að taka umræðu um þá stórtæku breytingu sem boðuð sé. „Það er ekki hægt að fara í þetta áður en búið er að greina heildarávinning og -kostnað fyrir umhverfið,“ segir hún.

Vísar hún til þess að stórar barrtrjáaplantekrur séu í raun mjög lokað landslag. „Þú sérð mjög lítið, það er sáralítil dýpt og víðsýni hverfur. Það er mjög dimmt og lítill botngróður,“ andstætt við þá flóru sem hingað til hefur verið ráðandi hér á landi. Segir hún nauðsynlegt að kanna hvað fólki finnist almennt um að landslaginu sé breytt svona mikið, enda sé landslagið stór þáttur í umhverfi fólks og hluti af lífsgæðum þess.

Segir viðhorf Skógræktarinnar á skjön við viðtekna skoðun

Á fundinum kom fram að stafafuran og sitkagreni séu bæði skilgreind í nokkrum nágrannalöndum okkar sem ágengar tegundir. Hér á landi hefur það hins vegar ekki verið gert og teljast tegundirnar því sem fullgildar tegundir til þessa að nota án þess að fara gegn alþjóðlegu samkomulagi um líffræðilega fjölbreytni, þar sem meðal annars er tekið á ágengum og framandi tegundum. Ekki hafi þótt komin nægjanleg reynsla á þessar tegundir til að taka ákvörðun um þær síðast þegar listinn yfir ágengar plöntur var uppfærður. Gagnrýnir Þóra að ekki sé horft til reynslu annarra landa og brunnurinn byrgður áður en fallið sé ofan í hann.

Víða er byrjað að fylla upp í skurði og endurheimta …
Víða er byrjað að fylla upp í skurði og endurheimta þannig votlendi með tilheyrandi bindingu kolefnis. Ljósmynd/Bergþór Magnússon

Þóra segir að Skógræktin hafi talað fyrir því að halda áfram með þessar tegundir og meðal annars svarað því til það sé ekkert til sem heiti ágengar plöntutegundir. „Þá hefur því verið haldið fram að það séu engin vísindaleg rök fyrir því að ágengar plöntutegundir hafi neikvæð áhrif á vistkerfið eða hafi valdið útdauða annarra tegunda,“ segir hún og bætir við: „Ég held að viðhorf þeirra [Skógræktarinnar] sé á skjön við það sem almennt er viðtekið í vísindasamfélaginu í dag.“

Telur meiri sátt nást um endurheimt votlendis

Í stað þess að fara í stórtæka skógrækt segir Þóra að betra væri að horfa til endurheimtar votlendis. „Við náum mörgum mjög jákvæðum umhverfismarkmiðum þannig strax og bindingin byrjar strax þegar búið er að moka ofan í skurði, meðan binding skóga er lengur að fara af stað.“ Þá segir hún bindingu í votlendi halda áfram yfir lengra tímabil meðan binding í skógum nái jafnvægi. „Ég held að það verði meiri sátt um það heldur en nýskógræktina,“ segir Þóra að lokum.

mbl.is