Mikilvægi hreyfingar í leikskólum

Hamast í klifurnetinu í Hljómskálagarðinum.
Hamast í klifurnetinu í Hljómskálagarðinum. Ómar Óskarsson

Heilbrigð sál í hraustum líkama. Þetta máltæki hafa flestir heyrt. Rannsóknir sýna að þetta má segja að sé að öllu leyti rétt. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á bæði líkamlegt og andlegt heilbrigði. Öll viljum við efla möguleika barna á góðu upphafi á lífsins braut. Eitt af þeim atriðum sem er mikilvægt er að efla er hreyfifærni og hreysti.

Hreyfifærni má segja að sé samhæfing þar sem fínhreyfingar, samhæfing augna og handa, samhæfing augna og fóta, grófhreyfingar og jafnvægi eru lykilatriði. Próf fyrir hreyfifærni mæla þessa þætti. Oftast er prófunum skipt upp í þætti eins og að raða kubbum á plötu, byggja kubba í turn, skrifa, grípa eða kasta baunapoka eða bolta og jafnvægispróf, bæði fyrir stöðujafnvægi og jafnvægi í hreyfingu.

Hreysti má segja að sé bæði styrkur, hraði, samhæfing, liðleiki og úthald. Hreystipróf geta innihaldið verkefni eins og að hoppa (t.d. langstökk án atrennu, hopp á öðrum eða báðum fótum á tíma), hlaupa (t.d. 20 m sprett og sex mínútna hlaup) kasta (t.d. tennisbolta og medisínbolta) og klifra.

Líkamleg hreyfing er lykill að aukinni hreyfifærni og aukinni hreysti. Þetta hafa margar rannsóknir sýnt fram á, meðal annars okkar rannsókn í samvinnu við fræðimenn við Háskólann í Verona á Ítalíu. Í alþjóðlegum ráðleggingum er talað um að börn eigi að hreyfa sig minnst 60 mínútur á hverjum degi. Okkar rannsóknir hafa sýnt að hreyfing sem er að hluta til stýrð, sem sagt stjórnað af kennara, sé jákvæðari en frír leikur fyrir virkni 4-5 ára barna.

Hreyfing er einnig lykill að því að geta tekið þátt í leik og þannig öðlast dýrmæta reynslu sem er mikilvæg fyrir félagslegan þroska barnsins.

Rannsóknir sýna einnig að hreyfing á unga aldri hefur jákvæð áhrif á grunnleggjandi heilastarfsemi (e. executive functions) það er að segja einbeitni, eftirtekt, athygli og vinnuminni. Heilinn vex og verður öflugri við þjálfun svipað og vöðvi. Taugatengingum fjölgar með þjálfun.

Eitt af þeim atriðum sem væri hægt að gera til að styrkja áhersluna á aukna hreyfingu er að fá íþróttakennara inn í alla leikskóla landsins. Íþróttakennarar eru sérfræðingar á sviði hreyfingar og heilsu. Þeir gætu sett upp dagskrá fyrir börnin byggða á ráðleggingum alþjóðlegra fræðimanna.

Með alhliða hreyfingu í öllum leikskólum erum við að skapa góðan grunn fyrir áframhaldandi þróun barnsins í gegnum námsferlið.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík og norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi.

Hermundur Sigmundsson.
Hermundur Sigmundsson. Kristinn Magnússon
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert