Ungar mæður eignast frekar börn með ADHD

Ungar mæður eru líklegri til þess að eignast börn með ADHD, ofvirkni og athyglisbrest, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar frá Suður-Ástralíuháskóla.

Í rannsókninni, sem birtist í Nature's Science Report, eru erfðafræðileg tengsl frjósemi kvenna og geðraskana barna þeirra skoðuð. Niðurstöðurnar sýna fram á að ungar mæður, sérstaklega mæður undir tvítugu, eru mun líklegri til þess að eignast börn með ADHD.

Rannsóknin tók til ríflega 220 þúsund mæðra og barna þeirra, en meðal þátta sem skoðaðir voru í tengslum við frjósemi kvennanna voru aldur við fæðingu fyrsta barns, fyrstu samfarir, aldur við fyrstu blæðingar, breytingaskeið og fjöldi barna. 

Þær geðraskanir sem tekið var mið af við rannsóknina voru svo ADHD, einhverfa, átraskanir, þunglyndi, geðhvarfasýki og geðklofi.

Aðstandendur rannsóknarinnar segja ungar mæður geta átt erfitt uppdráttar vegna þess að þær séu enn svo ungar sjálfar. Með því að vera meðvituð um tengsl ungs aldurs og ADHD sé hægt að sjá til þess að ungar mæður séu betur upplýstar og betur undirbúnar til þess að takast á við hugsanlegar geðraskanir barna sinna.

mbl.is