Nam aldrei að hann væri að fara aka á manneskju

Úr myndavél Uber-bílsins, rétt áður en hann ók konuna niður …
Úr myndavél Uber-bílsins, rétt áður en hann ók konuna niður í mars 2018. AFP

Hugbúnaður sjálfkeyrandi bíls frá Uber, sem drap gangandi konu í borginni Phoenix í Arizona-ríki í Bandaríkjunum í fyrra, greindi ekki að hún væri vegfarandi. Ástæðan var sú að konan var að ganga yfir götu á stað þar sem ekki var gangbraut. Hugbúnaður bílsins gerði ekki ráð fyrir því að fólk gæti tekið upp á  því að ganga yfir götur á stöðum þar sem ekki væru gangbrautir. Frá þessu greina bandarísk samgönguyfirvöld í dag.

Ný skýrsla hefur nú verið gefin út um slysið, en áður hafði komið fram frá rannsakendum að hugbúnaður bílsins hefði numið konuna, þar sem hún gekk yfir götu með reiðhjól sitt, nærri sex sekúndum áður en hann keyrði á hana.

Það sem nú kemur fram er hins vegar það að í stað þess að nema konuna sem gangandi vegfaranda hafi hann einfaldlega numið hana sem hlut á veginum. Bílstjóri var um borð í bílnum er slysið átti sér stað, en hann var ekki við stjórn ökutækisins.

Bíllinn nam ekki að árekstur væri í nánd fyrr en 1,2 sekúndum áður en hann ók konuna niður, en á þeim tímapunkti bældi hugbúnaður bílsins þó niður bæði bremsu- og stýringaraðgerðir til þess að koma í veg fyrir að ökulag bílsins yrði kenjótt (e. erratic).

Það eina sem hugbúnaður bílsins gerði í þessum aðstæðum var að gefa bílstjóranum hljóðviðvörun um að nú stæði til að hann ætlaði að fara að hægja ferðina.


Eftir að atvikið átti sér stað, í mars 2018, hætti Uber tímabundið tilraunum sínum með sjálfkeyrandi leigubíla. Þær hafa þó hafist á ný og samkvæmt frétt AFP um þetta mál hefur fyrirtækið sannfært bandarísk samgönguyfirvöld um að breytingar hafi verið gerðar á hugbúnaðinum sem verði til þess að bílarnir átti sig á því að manneskja sé á veginum framundan.

mbl.is