Ábyrgð stjórnmálamanna er mikil

Kolbeinn Óttarsson Proppé á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í síðustu …
Kolbeinn Óttarsson Proppé á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í síðustu viku. Magnus Fröderberg/Norden.org

Ísland ætlar í formennskutíð sinni í Norðurlandaráði 2020 að standa vörð um lýðræðið með því að berjast gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum sem grafa undan því. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna sem situr í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, segir að hér sé ábyrgð stjórnmála- og fjölmiðlafólks mikil því ef vísvitandi er farið með rangt mál sé höggvið nærri rótum lýðræðisins.

Á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði hyggst Íslandsdeild Norðurlandaráðs beita sér fyrir umræðu um dreifingu falskra og villandi upplýsinga með því að leita svara við eftirfarandi spurningum:

● Hvernig geta stjórnvöld, stjórnmálamenn, félagasamtök og aðrar stofnanir samfélagsins brugðist við dreifingu rangra og villandi upplýsinga til almennings í þeim tilgangi að standa vörð um lýðræðisleg grundvallargildi og mannréttindi? Hvert er hlutverk norræns samstarfs á þessu sviði?

● Hvaða hlutverki geta fjölmiðlar gegnt í baráttunni gegn falsfréttum og villandi upplýsingum og hvaða stuðning þurfa þeir til að geta sinnt því verkefni? Getur norrænt samstarf stuðlað að því að styrkja stöðu fjölmiðlanna og hvernig geta Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin beitt sér?

● Hvernig er hægt að auka vitund almennings um dreifingu rangra upplýsinga og falsfrétta, þannig að sem flestir verði meðvitaðir um hættuna sem getur falist í að dreifa þeim? Hvernig er betur hægt að nýta norrænt samstarf til þess.

AFP

Upplýsingaóreiða og falsfréttir ógna friði í heiminum með því að grafa undan trausti og gildum lýðræðis og mannréttinda. 

Falsfréttir og áhrif þeirra á kosningaúrslit og lýðræðið almennt hafa verið mikið til umræðu á síðustu árum, einkum í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2016 og þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit í Bretlandi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að erlendir aðilar hafa reynt að hafa áhrif á kosningar með ýmsum aðferðum, þar á meðal með því að dreifa falsfréttum, að því er segir í formennskuáætlun Íslands.

„Dreifing villandi og falskra upplýsinga til að koma höggi á andstæðinga á sér langa sögu og hefur oft verið skipulega beitt í deilum og átökum þjóða, hópa og einstaklinga. Með þeirri byltingu sem orðið hefur í net- og upplýsingatækni og ekki síst með tilkomu og hröðum vexti samfélagsmiðla á síðustu árum hefur þessi ógn tekið á sig nýja og geigvænlegri mynd en áður. Hægt er að safna margvíslegum upplýsingum um notendur miðlanna og beina í kjölfarið að þeim sérsniðnum falsfréttum og áróðri sem ætla má að þeir séu móttækilegir fyrir.

Í sumum tilvikum eru þessar falsfréttir sem birtast á samfélagsmiðlunum ekki sérstaklega til þess ætlaðar að grafa undan lýðræðissamfélögum heldur er markmiðið einfaldlega að fá notendur til að smella á þær og afla þannig auglýsingatekna. Áhrifin á traust og lýðræði eru þó að miklu leyti hin sömu og í upplýsingastríði aðila þar sem röngum upplýsingum er dreift í því skyni að koma höggi á stjórnvöld og stofnanir í opnum lýðræðislegum samfélögum og valda pólitískum óstöðugleika.

Ljóst er að stjórnvöld geta ekki ein ráðið fram úr þessum vanda. Þá mega úrræði sem miða að því að auka áfallaþol samfélagsins ekki verða til þess að fórna þurfi því frelsi og grunngildum sem eru undirstaða lýðræðisríkja. Virkja þarf samfélagið allt og nýta sér þann styrk sem býr í opnu og frjálsu samfélagi þar sem frjáls félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar fá að þrífast og dafna. Þessir aðilar þurfa allir að taka höndum saman til að verjast þessari nýju ógn.

Óháðir og trúverðugir fjölmiðlar hafa löngum verið eitt helsta mótvægið við áróðri og fölskum upplýsingum en þeim hefur reynst erfitt að fóta sig í nýjum veruleika sem mótast af upplýsingatækni og samfélagsmiðlum. Auglýsingatekjur sem áður voru mikilvægur þáttur í fjármögnun fjölmiðlareksturs lenda nú að miklu leyti í höndum alþjóðlegra tæknifyrirtækja sem ekki búa við sama lagaramma og faglegir og sjálfstæðir fjölmiðlar. Þessi þættir stuðla saman að því að fjölmiðlum reynist erfitt að uppfylla lýðræðishlutverk sitt,“ segir í formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2020.

Forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, er tíðrætt um falsfréttir og hefur …
Forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, er tíðrætt um falsfréttir og hefur hann ítrekað sakað fjölmiðla um að dreifa slíkum fréttum. AFP

Ein af stóru áskorunum

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að norræna ráðherraráðið hafi að einhverju leyti sett fókusinn á falsfréttir undanfarið ár en Ísland gegnir formennsku þar í ár. Með því að setja falsfréttir og upplýsingaóreiðu í öndvegi ætli Ísland að nýta sér þá vinnu sem þegar var búið að vinna á vegum ráðherraráðsins. Þannig getur mögulega náðst meiri árangur.

Af hverju urðu falsfréttir fyrir valinu?

„Jú þetta er ein af þessum stóru áskorunum sem samfélög standa frammi fyrir í dag. Það eru nánast öll ríki og ríkjasambönd að takast á við þetta vandamál. Evrópusambandið hefur gert það í mörg ár og sú deild sem sér um þetta þar hefur stækkað ört,“ segir Kolbeinn.

Er stríðið tapað?

Hann nefnir sem dæmi afskipti af kosningum og bendir á að þetta lúti að stöðu fjölmiðla og lýðræðinu sjálfu. „Sem fyrrverandi fjölmiðlamanni er mér málið mjög hugleikið. Þetta er ótrúlega áhugavert mál að takast á við því það er svo víðfeðmt og mikil grunngildi sem liggja þarna undir í kviku umhverfi.“

Spurður út í hvort hægt sé að bregast við þessu: Erum við ekki búin að tapa þessu stríði?

„Við erum búin að tapa því á þann hátt að flæði rangra upplýsinga verður ekki stöðvað,“ segir Kolbeinn og bendir á að það sýni einmitt hversu áhugavert þetta er. „Viljum við takmarka flæði rangra upplýsinga? Viljum við takmarka rétt fólks til þess að dreifa röngum upplýsingum? Ef við viljum það erum við komin að tjáningarfrelsinu. En við erum ekki búin að tapa stríðinu í þeim skilningi. Eina mögulega svarið, sem er um leið engin töfralausn, er að auka fræðslu innan menntakerfisins. Eins að styðja öflugri fjölmiðla sem eru vandir að virðingu sinni. Fjölmiðlar sem vinna sínar fréttir vel og myndu aldrei birta eitthvað sem er rangt. Sem er gullna regla fjölmiðlunar,“ segir Kolbeinn. 

Falsfréttir hafa skapað mikið vandamál um allan heim.
Falsfréttir hafa skapað mikið vandamál um allan heim. AFP

Kenna gagnrýna hugsun

Kolbeinn segir að eitt af því sem er til skoðunar og í vinnslu hjá norrænu menntamálaráðherrunum sé kenna gagnrýna hugsun og auka hlut hennar meðal annars í gegnum námskrá. „Þetta er ekki einfalt og hvernig færðu fólk til þess að skilja að sumt af því sem það sér á internetinu er rugl? Það er eitt en svo er það annað að þrátt fyrir að fólk átti sig á því að það er rugl þá á fólk fullan rétt á að gera eitthvað með það rugl,“ segir hann. 

Að sögn Kolbeins hefur flæði falsfrétta aukist á sama tíma og skilningur fólks á því hvað séu falsfréttir eykst. Flæði upplýsinga er gríðarlegt og oft getur verið erfitt að greina á milli hvað sé rétt og hvað rangt.

Aðkallandi að styðja fjölmiðla á Íslandi

Kolbeinn segir að hann líkt og aðrir geri sér fyllilega grein fyrir því að vandamál falsfrétta verður ekki leyst á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði. Aftur á móti sé mikilvægt og nauðsynlegt að tala meira um þetta vandamál og halda umræðunni á lofti. 

„Ef við horfum á Ísland þá tengi ég þetta beint við stuðning við fjölmiðla,“ segir Kolbeinn og vísar þar til þess að mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, stefnir á að leggja fram frumvarp í vetur sem miðar að því að styðja meðal annars við ritstjórnir einkarekinna fjölmiðla.

Kolbeinn segir að það sé mjög aðkallandi aðgerð hér á landi. Að styrkja stöðu fjölmiðla og um leið auka fræðslu með því að efla gagnrýna hugsun í gegnum menntakerfið. Þegar kemur að fjölmiðlum sé mikilvægt að stjórnmálamenn hafi ekki afskipti af hlutum eins og efnistökum og eignarhaldi þeirra.

„Í því samhengi má aldrei koma inn í huga stjórnmálamanna um hvað fjölmiðlar fjalla eða eignarhald þeirra. Það er eitthvað sem okkur kemur nákvæmlega ekkert við. Eina sem skiptir máli er að búa til þannig umhverfi að hér þrífist fjölmiðlar sem geti sinnt þessu gríðarlega mikilvæga lýðræðislega hlutverki sínu.

Menn láta stundum eins og við séum eitthvað í háloftunum þegar við tölum um lýðræðishlutverk fjölmiðla. Fyrir mér er þetta algjörlega klippt og skorið. Öflugir fjölmiðlar efla lýðræðisvitund. Þeir veita stjórnvöldum hverju sinni algjörlega nauðsynlegt aðhald,“ segir Kolbeinn.

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, hefur legið undir gagnrýni fyrir að …
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, hefur legið undir gagnrýni fyrir að láta falsfréttir viðgangast á miðlum sínum. AFP

Að hans sögn er Ísland eina landið á Norðurlöndunum sem styður ekki fjölmiðla beint með styrkjum og vísar þar í greinargerð sem fylgdi stjórnarfrumvarpi um breytingar á lögum um fjölmiðla.

 „Í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru veittir bæði beinir og óbeinir ríkisstyrkir til fjölmiðla. Í Finnlandi eru veittir styrkir til fréttablaða sem gefin eru út á tungumálum minnihlutahópa. Víðtækari framleiðslu- og dreifingarstyrkir eru til staðar í Noregi og Svíþjóð. Í Danmörku er annars konar styrkjakerfi þar sem stuðningur er veittur til framleiðslu ritstjórnarefnis á prentuðu formi fyrir smærri fjölmiðla með útbreiðslu á landsvísu auk þess sem stuðningur er veittur til netmiðla. Í Danmörku er einnig veittur verkefnastyrkur vegna stofnunar nýrra fjölmiðla og þróunar þeirra miðla sem fyrir eru á markaðnum.

Það liggur því fyrir að Ísland eina norræna ríkið sem veitir ekki beina eða óbeina styrki til einkarekinna fjölmiðla. Í grundvallaratriðum byggist stefnumótun stjórnvalda annars staðar á Norðurlöndunum gagnvart einkareknum fjölmiðlum á ákvæðum stjórnarskrár ríkjanna um tjáningarfrelsi og mikilvægi þess. Stjórnvöld telja sér þannig rétt og skylt að stuðla að upplýstri og opinni almennri umræðu. Í þessum ríkjum er um að ræða heildstæða stefnumótun sem tekur til réttinda fjölmiðla og skyldna, hlutverks þeirra í almannaþjónustu, fjölmiðlalæsis, beinna og óbeinna ríkisstyrkja o.fl. Á þessum grundvelli byggist stefna ríkjanna fjögurra um ríkisstyrki til framleiðslu frétta og fréttatengds efnis með það markmið að leiðarljósi að efla tjáningarfrelsi og lýðræði í viðkomandi ríkjum. Styrkirnir eiga að tryggja fjölbreytni og stuðla að faglegri blaða- og fréttamennsku til hagsbóta fyrir almenning,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Sjá nánar hér

Eitt af því sem Íslandsdeild Norðurlandaráðs er að skoða varðandi falsfréttir er að halda viðburð hér á landi 3. maí, á alþjóðlegum dagi fjölmiðlafrelsis (World Press Freedom Day), og segir Kolbeinn að vonir standi til þess að viðburðurinn verði haldinn í samstarfi við UNECSO.

Jafnframt verður fjallað um þetta mál á þemaþingi í Finnlandi í mars og eins er verið að skoða aðkomu norrænu upplýsingastofnunarinnar Nordicom að vinnu og gerð tillagna í þessu samhengi. 

Stjórnmálamenn eiga aldrei að breyta sannleikanum

„Bara það að lyfta málinu upp og ræða það er alltaf til góðs. Síðan er ábyrgð okkar stjórnmálamanna gríðarleg. Eitt er stuðningur við fjölmiðla. Annað er hvernig við högum okkar málflutningi. Það á aldrei að heyrast í pólitík að stjórnmálamaður vísvitandi breyti sannleikanum. Aldrei. Sama hvort það gagnast málflutningi hans hverju sinni.

Auðvitað getur það komið fyrir að stjórnmálamaður fari rangt með eins og aðrir. Misfari með tölur eða eitthvað. En þegar stjórnmálamaður fer vísvitandi með rangt mál í pólitískum tilgangi er hann að höggva að rótum lýðræðisins,“ segir Kolbeinn.

Hann segir það sama gilda um fjölmiðla sem vísvitandi skrumskæli sannleikann eða birti lygar eða fals. Þá séu þeir einnig að höggva að rótum lýðræðisins. 

Kolbeinn segir að ef þróunin heldur áfram þannig að fólk viti aldrei hvað er satt og rétt. „Ef við erum þar, að við getum ekki verið sammála um mælanlegar staðreyndir, hvar erum við þá? Ábyrgð stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks er mikil. Því ef höggvið er nærri rótum lýðræðisins á þennan hátt er verið að skekkja alla umræðu. Þetta er ekki einkamál stjórnmálamanna og fjölmiðlanna. Þetta er eitthvað sem við sem samfélag eigum að taka mjög alvarlega og taka höndum saman um,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé.

mbl.is