Geta valdið meiri skaða en bata

Túrmerik.
Túrmerik. mbl.is/ThinkstockPhotos

Þeir sem eru með krabbamein ættu að segja læknum sínum frá því ef þeir eru að taka einhver jurtavörur í lækningaskyni því einhver innihaldsefni þeirra geta komið í veg fyrir að krabbameinsmeðferðin virki. Má þar nefna hvítlaukstöflur, engiferrótartöflur og náttúrlyf sem unnið er úr laufum musteristrés (ginkgo). Þessi náttúrulyf geta valdið því að sár gróa síður þegar brjóstakrabbamein breiðist út.

Maria Joao Cardoso, sem er krabbameinsskurðlæknir, segir í samtali við BBC að engar sannanir séu fyrir því að náttúrulyf eða náttúrukrem virki á nokkurn hátt þegar kemur að krabbameini. „Ef um vafa er að ræða er best að sleppa þeim algjörlega,“ segir hún.

Lyf eða náttúrulyf?
Lyf eða náttúrulyf? Ljósmynd af vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Hún segir að læknar þurfi að vera meira vakandi fyrir því að spyrja sjúklinga sína út í hvað þeir eru að taka á sama tíma og krabbameinsmeðferð stendur yfir. Cardoso er yfirskurðlæknir þegar kemur að brjóstakrabbameini á Champalimaud sjúkrahúsinu í Lissabon.

Cardoso segir að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir sjúklinga að hafa samband við lækna sína áður en þeir prófa óhefðbundnar meðferðir við krabbameini sem hefur dreifst út í húð. Þetta gerist í einu af hverjum fimm tilvikum brjóstakrabbameins en sjaldnar með annað krabbamein, segir í frétt BBC.

Cardoso nefnir sérstaklega til sögunnar eftirfarandi náttúrulyf. 

  • green chiretta/Andrographis paniculata
  • glitbrá
  • hvítlaukur
  • musteristré/ginkgo
  • ginseng
  • rósaþyrnir
  • hestakastanía/horse chestnut
  • túrmerik

Cardoso segir eðlilegt að margir þeirra sem greinast með krabbamein reyni að leita til óhefðbundinna læknismeðferða eða náttúrulyfja í þeirri von að fá bata. En að fólk verði að gera sér grein fyrir að þau geti gert illt verra. „Það mikilvægt að muna hvað sé æðsti tilgangur læknisfræðinnar: Ekki valda skaða,“ segir Cardoso. 

Oft getur reynst erfitt að átta sig á muninum á lyfi, náttúrulyfi og náttúruvöru enda mikill hluti lyfja frá náttúrunni kominn. Talið er að að minnsta kosti þriðjungur hefðbundinna lyfja á markaði eigi fyrirmynd sína að rekja til efna sem finnast í náttúrunni. Best er að lýsa þessum mun út frá framleiðsluferlinu og öryggi lyfjanna, segir í grein sem n og Kristján Linnet lyfjafræðingar á þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, rituðu í Morgunblaðið í september.

Anna Bryndís Blöndal.
Anna Bryndís Blöndal.

„Hefðbundin lyf sem læknir ávísar innihalda einungis tiltekin efni og hafa skilgreint innihald. Á þeim hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir og sýnt fram á að lyfið virki við ákveðnum sjúkdómum og séu örugg í venjulegum skömmtum. Vitað er nákvæmlega hversu mikið af efninu er í lyfinu, hverjar helstu aukaverkanir og milliverkanir eru og í hvaða aðstæðum megi alls ekki nota lyfið. Framleiðslan er undir ströngu gæðaeftirliti og lyfið er skráð hjá Lyfjastofnun sem hefur eftirlit með gæðum þess.

Náttúrulyf í tveimur flokkum

Náttúrulyf eru unnin á einfaldan hátt (t.d. með þurrkun, mölun, úthlutun, pressun) úr jurtum, dýrum, örverum, steinefnum eða söltum og þau innihalda oft fleiri en eitt efni. Náttúrulyf mega eingöngu vera ætluð til inntöku, samanber töflur, eða staðbundinnar notkunar á húð eins og krem eða smyrsli. Skammtastærðirnar eru staðlaðar, innihaldið er þekkt og sýna þarf fram á að framleiðslan uppfylli gæðakröfur.
Líkt og með lyf þá eru aukaverkanir skráðar. Hægt er að skipta náttúrulyfjum í tvo flokka. Annaðhvort þarf að sýna fram á að lyfið virki gegn ákveðnum sjúkdómi til að mega kallast náttúrulyf. Ekkert slíkt lyf er nú skráð á Íslandi. Hitt er að söguleg hefð sé fyrir notkun lyfsins. Þá hefur náttúrulyfið verið notað það lengi að talið er að það sé öruggt til notkunar. Þrjú slík náttúrulyf eru skráð á Íslandi, öll jurtalyf, og heita Glitinum, Lyngonia og Harpatinum. Eftirlit með þeim er í höndum Lyfjastofnunar.

Flóknar efnablöndur

Náttúruvörur eru oft flóknar efnablöndur. Þær flokkast með fæðubótarefnum. Náttúruvörur geta innihaldið náttúruefni og önnur efni eins og vítamín, steinefni og amínósýrur. Eins og á við um náttúrulyf þá er framleiðslan einföld. Innihaldið er hins vegar ekki þekkt og því ekki vitað almennilega hvað er í vörunni eða í hversu miklu magni. Engar kröfur eru gerðar um rannsóknir eða að sýnt sé fram á að efnið virki við ákveðnum einkennum, sé öruggt né að framleiðslugæðin séu tryggð. Allri ábyrgð er varpað yfir á neytendur. Eftirlitið er í höndum Matvælastofnunar en ekki Lyfjastofnunar líkt og með náttúrulyf og lyf.

Kristján Linnet.
Kristján Linnet.

Inntöku hætt við aukaverkanir

Náttúrulyf og -vörur geta haft áhrif á verkun lyfja. Þeir sem taka lyf ættu því að varast notkun þeirra, sérstaklega þegar um náttúruvöru er að ræða. Ástæðan er sú að ekki er alltaf vitað hvaða efni eru í vörunni eða í hversu miklu magni. Gögn um öryggi náttúruvara liggja því ekki fyrir og áhættan við notkun getur oft vegið meira en hugsanlegur ávinningur. Þungaðar konur, börn, aldraðir og einstaklingar á lyfjum ættu að forðast notkun náttúruvara. Ef einhverjar aukaverkanir koma fram líkt og kláði, útbrot, magaóþægindi eða höfuðverkur skal hætta inntöku strax. Ef einkennin eru mikil eða langvarandi skal hafa samband við lækni eða lyfjafræðing,“ segir í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert