Missa dúfur tærnar vegna hára?

Dúfur á flugi. Ný frönsk rannsókn bendir til þess að …
Dúfur á flugi. Ný frönsk rannsókn bendir til þess að ein helsta ástæðan fyrir því að dúfur í borgum lendi í því að missa tærnar sé sú að þær flækist í mannshárum. AFP

Í lengri tíma hafa vísindamenn talið að ástæðan fyrir því að dúfur í borgarumhverfi misstu tærnar væri vegna einhverra sýkinga eða snertingar við skaðleg efni. En franskir vísindamenn telja sig nú vera komnir með aðra og réttari skýringu: mannshár.

Teymi vísindamanna frá náttúrusögusafni Frakklands og Lyon-háskóla hefur rannsakað tærnar á dúfum á 46 stöðum í París og komist að því að mengun af völdum manna átti líklega sök á öllum þeim tám sem dúfurnar missa. Fleiri tær vantaði á dúfur þar sem loft- og hljóðmengun var mikil.

Það sem kom vísindamönnunum þó helst á óvart var að afskræmdar tær voru sérlega algengar ef margar hárgreiðslustofur voru í grennd við staðina sem rannsakaðir voru. Þetta þykir gefa í skyn að fuglarnir missi tærnar sökum þess að þeir flækist í hárum.

Vísindamennirnir sögðu einnig að niðurstöður þeirra bentu til þess að fleiri græn svæði gætu komið dúfum í borgum til góða, en dúfur sem voru í grennd við slík svæði voru líklegri til þess að vera með heilar tær.

mbl.is