Stofnandi Wikipediu með nýjan samfélagsmiðil

Jimmy Wales er, eins og svo margir aðrir, orðinn langþreyttur …
Jimmy Wales er, eins og svo margir aðrir, orðinn langþreyttur á smellubeitu. AFP

Jimmy Wales, annar stofnenda alfræðiorðabókarinnar Wikipediu, hefur svipt hulunni af nýjum samfélagsmiðli með það fyrir augum að reyna að draga úr áhrifum smellubeitu og misvísandi fyrirsagna.

Samfélagsmiðillinn hefur fengið nafnið WT:Social og er ætlaður sem vettvangur til að ræða um áhugaverðar greinar og fréttir héðan og þaðan af internetinu. Rekstur WT:Social verður með öllu aðskilinn frá starfsemi Wikipediu, en mun þó nota sama viðskiptamódelið og reiða sig á frjáls framlög til að halda verkefninu í loftinu.

Í umfjöllun FT um nýja vefinn er haft eftir Wales að verulegir ókostir fylgi því viðskiptamódeli samfélagsmiðla að reiða sig nær alfarið á auglýsingatekjur. „Reynslan hefur sýnt að það sem verður ofan á í þannig módeli eru [greinar] sem eru lélegar að gæðum.“

Hugbúnaðurinn á bak við WT:Social verður frábrugðinn þeim sem stýrir Facebook og Twitter að því leyti að nýjustu tenglar verða mest áberandi í umræðunni, frekar en þeir sem fá flestar athugasemdir.

WT:Social fór í gang í október og eru skráðir notendur núna nærri 50.000 talsins. Þar af hafa rúmlega 200 manns látið fé af hendi rakna til vefsíðunnar.

Wales er ekki sá fyrsti til að gera tilraun með nýjan og betri samfélagsmiðil, lausan við alla ókosti vefsíða eins og Facebook, en fram til þessa hafa aðrir valkostir ekki náð að komast almennilega á skrið. Hann vonast til að núna sé rétti tíminn fyrir nýjan umræðuvettvang þar sem „smellubeitu-bull“ er ekki að gera notendum lífið leitt.

„Fólk er orðið dauðþreytt á öllu ruslinu sem er á sveimi,“, segir hann. „Fréttamiðlar reyna sitt besta í mjög erfiðu markaðsumhverfi en vandinn snýr einkum að því hvernig fréttum er dreift.“

mbl.is