82% íslenskra heimila tengd ljósleiðara

AFP

Gagnaveita Reykjavíkur (GR) lauk nýverið við að tengja hundraðþúsundasta heimilið við Ljósleiðarann og var það í Árborg. Nú eru 82% íslenskra heimila tengd ljósleiðara og samkvæmt skýrslu IDATE DigiWorld er Ísland nú í öðru sæti í Evrópu hvað varðar hlutfall virkra ljósleiðaratenginga á heimilum. Lettland er í fyrsta sæti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá GR. 

Þá segir, að á næstu misserum verði heimili sem eru tengd Ljósleiðara GR orðin 120.000.

„Auk nýbygginga á starfssvæði GR vinnur fyrirtækið nú að lagningu Ljósleiðarans í eldra húsnæði í Reykjanesbæ, Árborg og í Vogum á Vatnsleysuströnd auk nýbygginga þar. Sé eingöngu miðað við áætlanir GR um uppbyggingu ljósleiðara verða um 90% heimila tengd árið 2023. Gagnaveita Reykjavíkur, sem á og rekur Ljósleiðarann, vinnur þannig ötullega að því markmiði stjórnvalda að Ísland verði að fullu ljóstengt,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is