Beita sér gegn augljósum lygum í auglýsingum

Google safnar gríðarlega miklum upplýsingum um notendur er þeir ferðast …
Google safnar gríðarlega miklum upplýsingum um notendur er þeir ferðast um vefinn og á meðal þeirra upplýsinga er mat algrímsins á því hvort einstaklingar eins og þú, lesandi góður, hneigist til hægri eða vinstri í pólitík. Þetta munu auglýsendur nú ekki lengur fá að nýta sér. AFP

Bandaríska tæknifyrirtækið Google ætlar að gera breytingar á stefnu sinni varðandi pólitískar auglýsingar, í átt til aukins gagnsæis. Helsta breytingin er sú að ekki verður lengur hægt að beina pólitískum auglýsingum að tilteknum hópum, byggt á meintum pólitískum skoðunum hópanna. Frá þessu greindi fyrirtækið á vef sínum í gær.

Þannig verður stjórnmálaflokkum og -mönnum ókleift að nota notendagrunn Google til þess að koma skilaboðum sínum beint áleiðis til einstaklinga í gegnum leitarvél Google og myndbandasíðuna YouTube, sem Google rekur.

Google safnar gríðarlega miklum upplýsingum um notendur er þeir ferðast um vefinn og á meðal þeirra upplýsinga er mat algrímsins á því hvort einstaklingar eins og þú, lesandi góður, hneigist til hægri eða vinstri í pólitík. 

Þetta munu auglýsendur nú ekki lengur fá að nýta sér. Einnig verður stjórnmálahreyfingum bannað að koma upplýsingum um einstaklinga, flokksfélagalistum eða öðru slíku, til Google í því skyni að beina auglýsingum síðan sértækt að þeim hópum.

Áfram verður þó hægt að beina auglýsingum sérstaklega að ákveðnum aldurshópum, kynjum og íbúum á ákveðnum svæðum, eða kaupa pólitískar auglýsingar í tengslum við ákveðna efnisflokka á YouTube (t.d. fótbóltavídeó eða hagfræðivídeó) eða leitarorð á Google.

Feta milliveg á milli Facebook og Twitter

Google segist ætla að beita sér gegn því að falskar yfirlýsingar eða lygar sem hægt sé að hrekja með augljósum hætti komi fram í auglýsingum frá stjórnmálafólki, eitthvað sem Facebook og stofnandi þess Mark Zuckerberg hefur legið undir ámæli fyrir að segjast ekki ætla að gera.

Á Facebook er hægt að ljúga og ljúga í auglýsingum og það látið óátalið, eins og Elizabeth Warren, frambjóðandi í forvali Demókrataflokksins fyrir komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum, sýndi eftirminnilega fram á fyrir skemmstu. Þá laug hún upp á Zuckerberg sjálfan og sagði, í kostaðri auglýsingu á miðlinum, að hann hefði lýst yfir stuðningi við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Samfélagsmiðillinn Twitter ákvað að banna allar pólitískar auglýsingar í síðasta mánuði, í kjölfar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um það hversu skaðlegt það sé fyrir lýðræðið að hægt sé að halda fölskum áróðri að hópum sem séu sérstaklega móttækilegir fyrir honum.

Tæknifréttaritari BBC í Norður-Ameríku segir að Google sé með þessari breytingu að feta eins konar milliveg á milli afstöðu Facebook og Twitter til pólitískra auglýsinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert