Súrefnisskortur ógnar lífríki sjávar

Túnfiskur er meðal þeirra tegunda sem er hvað viðkvæmust fyrir …
Túnfiskur er meðal þeirra tegunda sem er hvað viðkvæmust fyrir minnkandi súrefnisinnihaldi sjávar. Ljósmynd/IUCN

Súrefnisinnihald sjávar fer lækkandi vegna loftslagsbreytinga og minnkandi næringar í sjó. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar á vegum Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN) en greint var frá niðurstöðum hennar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem fram fer í Madríd. BBC greinir frá.

Í skýrslunni segir að súrefnisskortur sé nú á 700 skilgreindum „sjávarsvæðum“, samanborið við 45 á sjöunda áratugnum. Þessi staða ógni ýmsum tegundum, einkum stórum og súrefniskræfum á borð við túnfisk, hákarl og oddnef (e. merlin). Helstu orsakir súrefnisskorts eru sagðar vera nitur og fosfór sem berst til sjávar úr landbúnaði og iðnaði. Við þetta bætist hlýnandi loftslag, en sjórinn gleypir í sig þorra þess varma og verður vatnið fyrir vikið súrefnissnauðara.

„Við höfum lengi vitað af minnkandi súrefni í sjónum, en við höfum ekki vitað af tengingunni við loftslagsbreytingar, og þetta er áhyggjuefni,“ segir Minna Epps frá Alþjóðanáttúruverndarsamtökunum. „Haldi ríki heims uppteknum hætti í útblæstri má gera ráð fyrir að heimshöfin missi um 3-4% alls súrefnis fyrir árið 2100,“ segir Epps. Staðan verði að öllum líkindum mun verri á hitabeltissvæðum þar sem líffræðileg fjölbreytni er mest.

Hún segir framtíð lífríkis sjávar í höndum stjórnmálamönnum og því sé skýrslan birt nú, á loftslagsráðstefnunni, þar sem leiðtogar heims eru saman komnir. „Til að snúa við þessari varhugaverðu þróun verðum við að draga stórlega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og auk þess notkun mengunarvalda í landbúnaði og annars staðar.“ 

Ljósmynd/IUCN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert