Eiríkur kjörinn formaður stjórnar EMBL

Eiríkur Steingrímsson.
Eiríkur Steingrímsson. Ljósmynd/Aðsend

Eiríkur Steingrímsson, prófessor í sameindalíffræði við læknadeild Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn formaður stjórnar European Molecular Biology Laboratory (EMBL), samevrópskrar stofnunar á sviði sameindalíffræði. Hann er fyrstur Íslendinga til þess að gegna því embætti.

Aðild að EMBL eiga 27 Evrópulönd en markmið stofnunarinnar er m.a. að vinna að framgangi rannsókna í sameindalíffræði í álfunni, þróun nýrrar tækni í greininni, þjálfun ungra vísindamanna og uppbyggingu gagnabanka sem nýtast öllum aðildarlöndum. Stofnunin rekur sex rannsóknastöðvar í Evrópu og Ísland hefur átt aðild að henni frá árinu 2005, að því er HÍ greinir frá í tilkynningu. 

Fram kemur, að stjórn EMBL marki stefnu fyrir stofnunina í vísindum, tækni og stjórnsýslulegum efnum og á hvert aðildarland einn fulltrúa í henni.

„Eiríkur hefur setið í stjórn EMBL fyrir hönd Íslands undanfarin ár, þar af sem varaformaður frá árinu 2016, en formannstíð hans hefst 1. janúar 2020. „Komandi ár verður sannarlega spennandi og mikil áskorun fyrir stjórnina. Við erum að undirbúa metnaðarfulla fimm ára stefnumörkun sem ýtt verður úr vör árið 2021 og það er sannur heiður að hafa verið kjörinn formaður stjórnar EMBL á þessum merku tímamótum í sögu stofnunarinnar,“ segir Eiríkur,“ segir í tilkynningunni.

Nánar á heimasíðu HÍ.

mbl.is