Ný tilfelli krabbalíkisæxla í lungum þrefaldast

Krabbalíkisæxli eru sjaldgæf tegund æxla sem eiga uppruna sinn í …
Krabbalíkisæxli eru sjaldgæf tegund æxla sem eiga uppruna sinn í taugainnkirtlakerfi og geta greinst víða í líkamanum, oftast í botnlanga en líka í lungum. Ný tilfelli slíkra æxla hafa þrefaldast á síðustu áratugum hér á landi. Ljósmynd/Aðsend

Krabbalíkisæxlum í lungum (e. pulmonary carcinoid tumors) fylgja almennt góðar horfur en nýgengi slíkra æxla hefur þrefaldast á síðustu áratugum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn íslenskra vísindamanna sem birtist nýverið í vísindatímaritinu General Thoracic and Cardiovascular Surgery.

Greinin er samstarfsverkefni hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala og læknadeildar Háskóla Íslands. Fyrsti höfundur greinarinnar er Ástríður Pétursdóttir, læknir á Landspítala, en leiðbeinandi hennar er Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir, sem jafnframt stýrði rannsókninni.

Krabbalíkisæxli eru sjaldgæf tegund æxla sem eiga uppruna sinn í taugainnkirtlakerfi og geta greinst víða í líkamanum, oftast í botnlanga en líka í lungum. Í lungum eru þau oftast staðbundin en þar sem þau geta dreift sér í eitla og til annarra líffæra eru þau flokkuð með lungnakrabbameinum. Krabbalíkisæxli í lungum eru algengari hjá konum en körlum og hafa veikari tengingu við reykingar en lungnakrabbamein almennt. Þá er þetta algengasta tegund lungnaæxla sem greinist í börnum og unglingum en meðalaldur við greiningu er um 60 ár í stað 70 ára í tilviki annarra lungnakrabbameina, að því er fram kemur í tilkynningu. 

Skýring fjölgunarinnar óþekkt

Rannsóknin tók til 96 sjúklinga sem greindust með krabbalíkisæxli í lungum á Íslandi á árunum 1955-2015. Tölfræðilíkön voru notuð til að meta þróun nýrra tilfella (nýgengi) og afdrif sjúklinganna, sérstaklega lífshorfur og útbreiðslu sjúkdómsins. Þetta er í fyrsta skipti sem slík rannsókn er gerð á jafn löngu tímabili hjá heilli þjóð.

Frá tímabilinu 1955-1984 til tímabilsins 1985-2015 fjölgaði nýgreindum tilfellum um rúmlega helming sem samsvarar tæplega 30% aukningu að meðaltali á hverjum áratug rannsóknarinnar. Niðurstöðurnar eru í samræmi við erlendar rannsóknir. Skýringin á þessari miklu aukningu er hins vegar ekki þekkt og má ekki rekja eingöngu til bættrar myndgreiningartækni.

Rúmlega 85% sjúklinga voru með sjúkdóm bundinn við lungað og gengust 91% þeirra undir lungnaskurðaðgerð þar sem æxlið var fjarlægt, en fimm árum frá aðgerð voru 90% þeirra á lífi sem teljast mjög góðar lífshorfur.

Hér má nálgast greinina í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert