Þekking – kenningar sem tengjast þróun og námi

Fókuseruð þjálfun er nauðsynleg eigi að öðlast færni á ákveðnu …
Fókuseruð þjálfun er nauðsynleg eigi að öðlast færni á ákveðnu sviði. Highwaystarz-Photography

Þekking er algjört lykilatriði fyrir framfarir í öllum þjóðfélögum. Það að skapa góða og djúpa þekkingu er mikilvægt. Þessi pistill fjallar um nokkrar mikilvægar kenningar í þessu sambandi.

Gottlieb – þróun

Þróun er samspil milli gena, taugakerfis, hegðunar og umhverfis. Gilbert Gottlieb sýndi fram á samspil þessara þátta í sinni líkindakenningu um formaukningu (e. probabilistic epigenesis). Esther Thelen sagði seinna að hægt væri að tala um stöðugt samspil milli vaxtar, þroska, náms og reynslu í þróun hvers einstaklings. Sem sagt við tölum um þróun einstaklinga og um hreyfiþróun, málþróun, lesþróun og félagsþróun en ekki um t.d. hreyfiþroska eða lesþroska. Þroski tengist meira erfðum, en þróun er samspil erfða og umhverfis.

Námsferlið frá yfirborðsþekkingu (margir litlir snagar) til djúprar þekkingar (stórir/sterkir …
Námsferlið frá yfirborðsþekkingu (margir litlir snagar) til djúprar þekkingar (stórir/sterkir snagar). Á myndinni má sjá fjögur mismunandi stig sem færni/ þekking fer í gegnum. Frá yfirborðsþekkingu til djúprar þekkingar. Rannsóknir bæði á hreyfifærni og vitsmunafærni sýna að sennilega fari öll færni/þekking í gegnum slík stig. Til dæmis er lítil fylgni hjá 10 ára börnum milli venjulegrar sam lagningar og samlagningar í texta. Þess vegna hafa fræðimenn mælt með að byrja ekki með orðadæmi fyrr en börn eru orðin vel læs. Vegna hinnar gífurlegu sérhæfingar í námi verðum við sem kennarar/þjálfarar/foreldrar að ákveða hvaða snaga (færni/þekkingu) við viljum byggja upp og gera sterka.

Edelman – nám

Við nám skapast tengingar milli taugafrumna eða taugafræðileg net (e. neural network). Sú færni eða þekking sem við vinnum með skapar net af taugafrumum sem við getum kallað „snaga“. Kenningin styður það sem er kalla má mótunareiginleika heilans (e. plasticity) og sérhæfingu. Með mótunareiginleikum er átt við að hægt er að forma heilann með áreiti og þjálfun. Notkun bætir (Use it and improve it) er mikilvægt atriði í þessu samhengi. Þá er átt við að þjálfi einstaklingur ákveðna færni þá styrkjast þær taugabrautir í heilanum sem eru notaðar, snaginn styrkist. Þennan „snaga“ má bæta með aukinni, sérhæfðri þjálfun. Það er auðveldara á yngri árum því þá erum við með meira af taugafrumum og það er auðveldara að mynda tengingar á milli þeirra. Með sérhæfingu erum við að tala um að öll færni og þekking þarfnast sérhæfðrar þjálfunar til að hún sitji í okkar taugakerfi og hægt sé að tala um djúpa þekkingu. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að stórmeistarar í skák eru góðir í skák en ekki stærðfræði nema þeir hafi þjálfað sig á því sviði líka. Til dæmis geta einstaklingar haft djúpa þekkingu á Halldóri Kiljan Laxness því þeir hafa unnið markvisst í langan tíma í að tileinka sér þekkingu um hann, Laxness snaginn er stór og sterkur. En að sama skapi getur þekkingin á H.C. Andersen kallast yfirborðsþekking (litlir snagar), því sama tíma og orku hefur ekki verið varið í að tileinka sér þekkingu um hann.

Csikszentmihalyi – flæði

Mihaly Csikszentmihalyi kom fram með kenningu sína um flæði árið 1975. Kenningin fjallar um að þegar áskoranir eru í samræmi við færni kemst einstaklingur í flæði. Þegar maður er í flæði gengur það sem maður tekst á við vel, grundvöllur til þess að læra er til staðar. Það má segja að flæði sé lykilatriði til að fólk öðlist innri áhugahvöt fyrir því sem það er að fást við. Það er hægt að segja að þetta kveiki elda hjá einstaklingum.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskólann í Reykjavík og Tækni …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskólann í Reykjavík og Tækni - og vísindaháskólann í Þrándheimi. Kristinn Magnússon

Ericsson – fókuseruð þjálfun og eftirfylgni

Í gegnum margra áratuga rannsóknir hefur Anders Ericsson komist að því að til þess að verða góður á ákveðnu sviði þarf að vera til staðar fókuseruð þjálfun (e. deliberate practice). Fókuseruð þjálfun er með klár markmið og þarfnast einbeitingar. Ericsson hefur einnig fundið út að eftirfylgni er lykilatriði í að ná árangri. Það er einnig stutt af Csikszentmihalyi. Til þess að geta ákveðið hvað þarf að þjálfa þarf maður að vita nákvæmlega hvar einstaklingur stendur miðað við þá færni/þekkingu sem viðkomandi er að vinna með. Þarna gegnir góður kennari, þjálfari og mentor lykilhlutverki. Hvar stendur viðkomandi einstaklingur og hvað á hann að leggja áherslu á? Sem sagt hvaða áskoranir á hann að fá?

Eflum þekkingu.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskólann í Reykjavík og Tækni - og vísindaháskólann í Þrándheimi. hs@ru.is

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »